Tveir fiskar

Veitingar

Loksins er kominn til skjalanna veitingastaður, sem hefur eitthvað fram að færa til viðbótar því, sem fyrir er. Tveir fiskar í Hafnarbúðum er vandaður sjávarréttastaður með ágætum hráfiski að japönskum hætti, yfirlætislaus og siðmenntaður, ólíkur flestum matstofum, sem opnaðar hafa verið undanfarna mánuði.

Að vísu eru Tveir fiskar mjög dýrir. Þríréttuð máltíð með kaffi kostar að meðaltali 2890 krónur í hádeginu og 4340 krónur á kvöldin. Stundum er í boði fast verð á matseðli með vali milli einstakra rétta og þá hefur þríréttað með kaffi kostað 2100 krónur í hádeginu og á kvöldin, sem er frábært verð. Eina leiðin til að vita, hvenær háa verðið gildir og hvenær frábæra verðið, er að spyrja áður í síma 511 3474 og haga seglum eftir því.

Hafnarbúðir eru upphaflega illa hannaðar, svo að útsýnið er ekki út á höfnina til smábátanna, heldur austur eftir Geirsgötu til Arnarshóls. Anddyrið er fremur tómlegt, en innrétting veitingasalarins sjálfs er hins vegar góð. Þar ræður að mestu ríkjum japönsk naumhyggja, berir veggir, með brúnni leirflísarönd sjávaraflamynda á aðra hönd og bláum postulínsflísum á hina. Framan við bláu flísarnar sker í augu sushi-skenkur úr massífum og grófum burðarviðum.

Við skenkinn stendur kínversk matmóðir með þjálfuðu handbragði og býr til marga tugi tegunda af japönskum hráfiski, sushi-hrísgrjónaklatta, maki-hrísgrjónarúllur og sahsimi án hrísgrjóna. Þessi matreiðsla á staðnum ber eins og gull af eiri af verksmiðjuframleiddu sushi, sem borið er fram á flestum nýju veitingastöðunum. Hún er raunar merkasta framlagið til menningarárs Reykjavíkur, sem ég veit um.

Fimm stykki af hráfiski eru í forrétti og tíu í aðalrétti. Það geta verið sex hrísgrjónaklattar með smálúðu, karfa, hörpuskel, túnfiski, humri og lax og fjórar hrísgrjónarúllur með surimi, túnfiski, ál og osti. Ekki eru síðri kaup í sérpöntuðum hráfiski, svo sem hrísgrjónaklöttum með ölduskel og ál og hrísgrjónarúllum með loðnuhrognum og krabbakjöti.

Fiskur hefur undantekningarlaust verið nákvæmlega og nærfærnislega eldaður að nýfrönskum hætti með höfuðáherzlu á eðlisbragð hráefnisins. Þar á meðal var pönnusteikt tindabikkja með rauðvínssósu, afar góðum olífum og grilluðum kartöfluþráðum. Ennfremur grilluð keila með fínasta mauki seljustöngla og epla og með balsamik-olíusósu. Einnig smjörsteiktur karfi með soðsósu og sprengdu hveiti. Ekki sízt ofnbakaður þorskur með smjörsteiktum grænmetisþráðum, kúskus og smásöxuðum og ristuðum og mikið pipruðum eplum.

Forréttir voru til fyrirmyndar. Frábær var frönsk fiskisúpa tær með mörgum tegundum fisks í þunnum sneiðum, svo og kræklingi í skelinni. Litlu síðri var tær graskersúpa, óvenjulegur réttur. Ennfremur hráar túnfiskþynnur með balsamik-olíusósu, laxahrognum, blaðsalati og furuhnetum. Næstum eins góð var risahörpuskel á tómatgrunni með steiktum eggaldinþynnum. Indæll var kryddleginn og léttsteiktur svartfugl með soja og sætri og fínni rauðrófusósu. Mögnuð og ilmrík voru steikt hrísgrjón með villisveppum og risarækjum.

Eina feilnótan í matreiðslunni var seig andabringa krydduð með engifer og sesam, of lengi elduð, borin fram með rófubitum. Sítrónuterta var einföld og létt, borin fram með þrenns konar ferskum berjum. Kaffi var gott, bæði espresso og pressukaffi.

Hér er drifhvítt í dúkum og þurrkum. Hér er borðbúnaður hvorki ferkantaður né marglitur, heldur einlitur og siðmenntaður. Hér er fjölbreyttur og fínn vínlisti, með ýmsu góðu víni hússins. Hér er þjónusta fagleg og vinsamleg, stundum seinleg, þegar mikið er að gera. Hér koma vatn og volgar brauðkollur á borð eftir þörfum. Þetta er menningarauki.

Jónas Kristjánsson

DV