Tveir milljarðar á dag

Greinar

Alþingismenn eru sem betur fer hættir störfum og farnir heim í hérað til kosningabaráttu. Undir lokin kostaði þingið um það bil tvo milljarða á dag. Töfin á þingslitum fram yfir helgi hækkaði til dæmis niðurstöður lánsfjárlaga úr 15 milljörðum í 25 milljarða.

Síðustu dagar alþingis einkenndust af stjórnlausum kosningatitringi. Ef það hefði fengið að starfa fram eftir þessari viku, hefðu fleiri óskhyggjumál náð fram að ganga á lokasprettinum, því að alþingismenn mega ekkert aumt sjá, einkum þegar kosningar eru í aðsigi.

Lánsfjárlagafrumvarpið hóf göngu sína í desember og nam þá 12 milljörðum. Um miðjan marz byrjaði það að tútna út. Fimmtudaginn 14. marz var það komið yfir 15 milljarða. Mánudaginn 18. marz náði það 21 milljarði og kvöldið eftir náðist 25 milljarða niðurstaða.

Lánsfjárlagafrumvarpið segir allt, sem segja þarf um afdrif þjóðarsáttarinnar, sem ríkisstjórnin hefur lengi gumað af. Þessi sátt er núna búin að vera, því að kosningaskjálftinn hefur sett af stað verðbólguhjól, sem ný ríkisstjórn verður að glíma við eftir kosningar.

Umsvif ríkisins á lánamarkaði munu stóraukast í kjölfar lánsfjárlaganna nýju. Áður var talið, að ríkið mundi þurfa 60% af öllum sparnaði í landinu. Nú er ljóst, að hlutfallið verður enn hærra. Það verður því minna til skiptanna fyrir aðra, sem telja sig þurfa lán.

Til að ná markmiðum lánsfjárlaga þarf komandi ríkisstjórn að bjóða góða kosti á lánamarkaði, það er að segja háa vexti. Þetta er í samræmi við almenn lögmál um framboð og eftirspurn, enda hafa bæði Þjóðhagsstofnun og Seðlabanki varað við þessari atburðarás.

Að svo miklu leyti sem ríkið tekur lánsfé sitt á erlendum markaði eykst peningamagn á innlendum markaði. Sú þensla eykur verðbólguna eins og aukin eftirspurn innlends fjármagns. Í báðum tilvikum er óhjákvæmilegt, að verðbólgu- og vaxtaskriða renni af stað.

Næstu daga munu hagfræðingar leika sér að spám um þessa framvindu. Niðurstöður þeirra verða að einhverju leyti misjafnar, en grunntónninn verður þó hinn sami. Þeir verða sammála um, að lánsfjárlögin rjúfi viðkvæmt jafnvægi þjóðarsáttarinnar um litla verðbólgu.

Þetta örlagaríka hrun þjóðarsáttar á lokadögum Alþingis er fyrst og fremst mál ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar á þingi. Ríkisstjórnin skilur við með engin þau tromp á hendinni, sem hún hefur státað mest af á stuttum og fremur glæfralegum ferli.

Undir öðrum og heilbrigðari kringumstæðum hefðu aðstandendur ríkisstjórnar getað mætt kjósendum og sagt: “Þótt margt hafi illa gengið, tókst okkur þó að halda verðbólgunni í skefjum.” Ljóst er orðið, að þetta munu þeir ekki geta sagt, nema vera vísvitandi að ljúga.

Þeirri spurningu er svo ósvarað, hvort það svari kostnaði að reyna að kaupa sér frið hjá kjósendum með kosningabruðli á borð við hin nýju lánsfjárlög, þegar margir kjósendur munu jafnframt átta sig á, að kosninga-víxillinn setur punktinn aftan við skeið þjóðarsáttar.

Á þessu stigi er ekki auðvelt að spá, hvort verði þyngra á metunum hjá fleiri kjósendum, gleði þeirra yfir hlutdeild sinni í dreifingu herfangs lánsfjárlaga, eða reiði þeirra yfir ábyrgðarlausu brotthlaupi ríkisstjórnarinnar frá eina afrekinu, sem hún gat státað af.

Hins vegar er strax hægt að fagna því, að þingmenn gera ekki meira ógagn á þessu kjörtímabili og að dagar núverandi ríkisstjórnar eru loksins, loksins taldir.

Jónas Kristjánsson

DV