Tveir þriðju í þéttbýli

Hestar

Tveir þriðju í þéttbýli

Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunautur:

Tveir þriðju hrossaræktenda eru búsettir í þéttbýli. Það er tímanna tákn, að fjölmennasti fundur þessarar fundaraðar skuli vera hjá Fáki í Reykjavík.

Á þessu ári tekur hestapassinn gildi í útflutningi. Til greina kemur að taka síðar upp hestapassa fyrir öll folöld, sem sett eru á.

Unnið er að endurskoðun á kynbótamati á skeiði. Áður var aðeins tíunda hvert hross klárgengt, en nú er þriðjungur hrossa klárgengur. Arfgengi skeiðs hefur hingað til verið ofmetið.

Fjölþjóðlegt kynbótamat er að komast á. Öll Norðurlönd eru komin í Feng og á þessu ári verða 4-5 sýningar í Þýzkalandi samkvæmt íslenzkum reglum.

Rannsóknastarf í hrossarækt er að eflast. Frjósemisrannsóknum fjölgar. Lokið er viðamikilli spattrannsókn, sem leiddi í ljós, að spatt stafar ekki af áreynslu, heldur er það arfgengt.

Sumarexem er stóra vandamálið í markaðsmálum hrossa. Á Keldum er með samstarfi við vísindastofnanir í mörgum löndum stefnt að framleiðslu bóluefnis, hugsanlega DNA-bóluefnis gegn exeminu. Í þetta umfangsmikla verkefni voru útvegaðar 10 milljónir króna á ári í þrjú ár. Unnið er að frekari fjármögnun þess.

Ropi hefur lítið verið rannsakaður enn. Flest bendir til, að hann stafi að litlu leyti af erfðum, en að mestu af aðstæðum í umhverfinu, til dæmis þegar viljug og ör hross eru langtímum saman á húsi.

Stefnt er að betri skilgreiningu ýmissa vídda geðslags, svo sem kjarks og viðkvæmni, deyfðar og vilja, gleði og fýlu, hörku og ljúflyndis. Fyrstu athuganir á þessu sviði fara fram með aðstoð nema í Hólaskóla.

Stærsta átaksverkefni hrossaræktarinnar er uppsetning WorldFengs, sem hefur kostað 15 milljónir króna. Ennfremur eru miklar vonir eru bundnar við endurreisn Eiðfaxa, sem nú stendur yfir.

Samfellt menntakerfi í hestamennsku er að hefja göngu sína. Það er í fimm stigum frá grunnskóla upp í fjölbraut. Tilraun hefur verið gerð með fyrsta stig á Gauksmýri og þriðja-fimmta stig í fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki.

Hestamenn þurfa að fylgjast vel með framvindu hugmyndarinnar um sendiherra íslenzka hestsins og beita áhrifum sínum til að hún komi að sem mestu gagni.

Vinsælar sýningar í skautahöllum

Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda:

Félag hrossabænda hefur samið við Bændasamtökin um, að félagsmenn fái aðgang að World Feng fyrir 1.250 krónur á ári í stað fulls gjalds, sem nemur 6.200 krónum. Samanlagt verður félagsgjald og áskrift 3.000 krónur.

Biðlistar sláturhrossa hafa horfið, enda hefur hrossum fækkað í landinu um 12.000 á nokkrum árum.

Samdráttur hefur orðið í sölu lífhrossa til útlanda, úr 2.600 hrossum á ári í 1.500 hross. Exem og tollsvikamál hafa skemmt fyrir útflutningi hrossa.

Möguleikar á Bandaríkjamarkaði eru að aukast. Á þessu ári verða hestasýningar á ís í mörgum skautahöllum vestan hafs. Slíkar sýningar hafa vakið mikla athygli.

Hrossabændur þurfa að vera í fleiru en hrossarækt. Til þess að búin beri sig, þurfa þeir að vera í alhliða þjónustu, svo sem tamningum og ferðaþjónustu.

Skoðanir fundarmanna

Ágúst Sigurðsson hrossaræktarráðunautur og Kristinn Guðnason, formaður Félags hrossabænda voru á fundaferð um landið á ofanverðum þessum vetri. Síðasti fundur þeirra var haldinn í Fáksheimilinu í Víðidal og er sagt frá þeim fundi á þessari síðu. Margir tóku til máls eftir framsöguerindin. Meðal annars kom þetta fram.

Kári Arnórsson:

Til þess að Fáksmenn geti fengið afsláttarverðið á WorldFeng þurfa þeir að vera félagsmenn í ræktunardeild félagsins og greiða félagsgjald í henni.

Snorri Ingason:

Eðlilegt er, að landsmót verði framvegis haldin á fjórum stöðum á landinu. Ennfremur er eðlilegt, að stórar kynbótasýningar verði í Reykjavík, þar sem mikið er af eigendum kynbótahrossa.

Kristinn Hugason:

Gera þarf meira til að efla gengi kappreiða. Ennfremur þarf að varðveita vilja og viðkvæmni í íslenzkum hrossum. Óeðlilegt er, að opinberir sjóðir eigi hlutafé í Eiðfaxa með einum erlendum aðila.

Viðar Halldórsson:

Eru ekki leiðbeiningarstöðvar það, sem okkur vantar á Bandaríkjamarkaði?

Jón Albert Sigurbjörnsson:

Við uppbyggingu markaðar í Bandaríkjunum er mikilvægast að efla félagskerfi bandarískra hestamanna. Hér heima eigum við að efla það starf, sem fyrir er, í stað þess að stofna sífellt til einshvers nýs, svo sem sendiherra íslenzka hestsins.

Eiríkur Benjamínsson:

Við þurfum að fá aftur umsagnir fróðra manna um mikilvægustu kynbótahrossin eins og voru í bókinni Ættfeður. Til greina kemur, að fá einn mann til að finna alla galla á viðkomandi hrossi og annan til að finna alla kosti þess. Allt of lítið er hlustað á tamningamennina, sem vita bezt, hvernig kynbótahrossin eru í raun og veru. Æskilegt er að koma að nýju á fót reiðdómurum.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson:

Við skulum taka hugmyndina um sendiherra íslenzka hestsins mátulega alvarlega. Kosningar eru í nánd og hestamenn hafa reynslu af því, að ráðherrar lofa oft upp í ermina á sér.

Jónas Kristjánsson skráði
Eiðfaxi 3.tbl. 2003