Tvenn skólabókar-mistök.

Greinar

Ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen gerði tvenn örlagarík mistök við leiðarenda lélegs ferils. Þessi mistök eru skólabókardæmi um, hvernig lélegir stjórnmálamenn hafa vanið sig á að misþyrma efnahagslífinu og spilla framtíðarvonum þjóðarinnar.

Steingrímur Hermannsson sjávarútvegsráðherra fækkaði skrapdögum togaranna og fjölgaði þar með dögunum, sem þeir geta verið á þorskveiðum. Þetta gerði hann vegna lélegra aflabragða og slæmrar afkomu togaranna.

Þessi stefna Steingríms er vítahringur, af því að léleg aflabrögð og slæm afkoma stafa af fækkun þorska í sjó. Leyfi til aukinnar sóknar hlýtur að leiða til enn hraðari minnkunar þorskstofnsins og aukinnar útrýmingarhættu.

Við höfum áður eyðilagt síldarstofninn og loðnustofninn og erum nú að eyðileggja þorskstofninn, mestu auðlind þjóðarinnar. Vegna framtíðarhagsmuna okkar verðum við að minnka sóknina í þorskinn í stað þess að auka hana.

Til of mikils er ætlazt, að Steingrímur skilji samhengi af þessu tagi. En hið alvarlega er, að Steingrímur heldur áfram að vera ráðherra, þótt ríkisstjórnir komi og fari. Hann heldur áfram að gera mistök af þessu tagi.

Þriggja manna ráðherranefnd ákvað að skera hækkun á taxta Landsvirkjunar úr 31% í 10% og búa þannig til 360 milljón króna hallarekstur á þessu ári. Þetta gerðu þeir til að draga úr verðbólguáhrifum raforkuverðsins.

Þessi stefna Hjörleifs Guttormssonar, Pálma Jónssonar og Tómasar Árnasonur er röng. Orku á ekki að selja á útsöluverði og skuldum á ekki að safna í útlöndum. Við erum þegar komin út á yztu nöf og getum hæglega hrapað.

Framleiðsla og dreifing raforku og jarðhita á að standa undir sér, ekki aðeins daglegum rekstri, heldur einnig uppbyggingu. Það er fáránlegt að ætla börnum okkar að greiða rafmagnið og hitann, sem við notum núna.

Verulegur hluti af skuldaaukningunni í útlöndum stafar af stefnu útsöluverðs á rafmagni og hita. Við höfum árum saman og í vaxandi mæli notið of ódýrrar orku og sent reikninginn til afkomenda okkar. Þetta hefur verið svívirðilegt.

Og nú hefur ríkisstjórnin gengið enn lengra á þessari ógæfubraut. Erlendar skuldir eru komnar upp í 50% af árlegri þjóðarframleiðslu. Með sama áframhaldi verðum við senn ósjálfbjarga og síðan seld á uppboði eins og Nýfundnalendingar.

Erlendar skuldir að vissu marki eru í lagi, ef þær eru myndaðar til að koma á fót rekstri, sem stendur undir vöxtum og afborgunum. En að nota skuldasöfnun til að greiða niður orkuverð er heimskulegt og glæpsamlegt.

Ráðherradagar Hjörleifs og Pálma eru taldir, en Tómas flytur kannski hina röngu stefnu inn í nýja ríkisstjórn. Ekki bætir úr skák, að sú ríkisstjórn er mynduð um eina stóra hugsjón: Að ná niður háum vísitölum á pappír.

Verðbólgustríð af slíku tagi veldur því, að lélegir ráðherrar fresta og neita nauðsynlegum verðbreytingum, svo sem hækkun orkuverðs og erlends gjaldeyris. Þeir spilla hagkerfinu í stríði sínu við háar vísitölur á pappír.

Ríkisstjórnir koma og fara. En því miður er ekki í augsýn nein sú ríkisstjórn, er snúi frá feigðarvegi vísitölufölsunar og verðkerfisskekkingar og herleiðingu barna okkar í þrældóm vaxta og afborgana af skuldasúpu í útlöndum.

Jónas Kristjánsson

DV