Tvídægra

Frá Skeggjastöðum í Vesturárdal í Miðfirði til Þorvaldsstaða í Hvítársíðu.

Um Tvídægru segir Stefán Jónsson á Húki í árbók FÍ 1962: “Leiðin liggur inn með Vesturá og síðan inn með Lambá og þá suður yfir Sléttafell, um Skipthól vestan við Króksvatn, þá um Staðarhól, austan við Dofinsfjöll, yfir Lambatungur og á Selhæð á Þorvaldsstaðahálsi, og svo ofan að Þorvaldsstöðum.”

Í Heiðarvígasögu segir frá fyrri bardaga Barða og flokks hans við Borgfirðinga hjá Langavatni norðan undir Dofinsfjöllum og síðari bardaga þeirra hjá Krókavatni sunnan undir Sléttafelli. Sagan segir frá klækjum Barða, sem faldi liðsmenn sína, svo að Borgfirðingar töldu sér sigur vísan og riðu sem ákafast til sóknar. Hertækni Barða var hin sama og hjá Gengis Kahn. Um Tvídægru segir Þorvaldur Thoroddsen: “Hún er á sumrum einn með lökustu fjallvegum, því að þar er manni boðið upp á holurðir, fen, fúamóa með urð undir og aðrar svipaðar trakteringar, en villist menn út af götuslitrunum, verða fyrir manni ótræðisflóar, sem varla halda manni, hvað þá hesti.” Þessi lýsing á raunar við um Núpdælagötur eins og Tvídægru. Hugsanlegt er, að Kolbeinn ungi hafi riðið Tvídægru, þegar hann fór til Borgarfjarðar að Þórði kakala með 600 manna lið 27. nóvember 1242. Öskubyl gerði á flokkinn um nóttina og urðu nokkrir menn úti.

Förum frá Skeggjastöðum. Þetta er nánast bein lína norður-suður. Leiðin er ekki merkt á korti. Hún er svo lítið farin, að víða sést engin slóð og vörðubrot eru fá og fallin. Nyrsti hluti hennar, norðan Sléttafells, er stundum nefndur Húksheiði. Sunnan Króksvatns er fjallaskálinn Húksheiði. Tvídægra nær 400 metra hæð við Langavatn, sunnan Króksvatns. Mikið er af mýrum og smávötnum á leiðinni og getur hún orðið torfær í rigningatíð. Að vetrarlagi getur hún hins vegar verið skjótfarin á harðfenni. Þetta er stytzta leiðin milli byggða í Húnaþingi og Borgarfirði, ef Holtavörðuheiði er frátalin. Sennilega eru allir látnir, sem þekktu þessa leið.

46,9 km
Húnavatnssýsla, Borgarfjörður-Mýrar

Skálar:
Húksheiði: N64 56.760 W20 49.046.

Nálægir ferlar: Húnaþing, Norðlingafljót.
Nálægar leiðir: Kjarardalur, Strúturinn.

Skrásetjari: Jónas Kristjánsson
Heimild: Árbækur Ferðafélagsins