Tvíeggjuð prófkjör

Greinar

Niðurstöður prófkjörs og forvals stjórnmálaflokka um síðustu helgi hafa eflt stuðning við tillögu um breytt kosningalög, sem Jón Skaftason alþingismaður flutti fyrir tæpum áratug og Magnús H. Magnússon og fleiri alþingismenn hafa nú lagt fyrir Alþingi.

DV hefur frá upphafi stutt þessa hugmynd, sem felur í sér, að prófkjör verði sameinuð kosningum, þannig að kjósendur raði sjálfir frambjóðendum þess lista, sem þeir kjósa. Þessi aðferð er heimil í Danmörku og hafa flestir stóru flokkarnir notað hana með góðum árangri.

Aðferðin tryggir, að ekki hafi aðrir afskipti af vali frambjóðenda á lista en þeir, sem kjósa listann. Hún tryggir að allir frambjóðendur berjast fyrir framgangi listans, einnig þeir, sem fara halloka í númeraröðinni, sem kjósendur ákveða í kosningunum.

Önnur hugmynd gerir ráð fyrir, að flokkarnir sameinist um prófkjör og hagi því þannig, að hver kjósandi geti aðeins tekið þátt í prófkjöri eins flokks. Þetta mun þó ekki hindra, að stjórnmálamenn hafi svigrúm til að fara í fýlu og sérframboð, sem spilli fyrir flokkunum.

Óraðaðir listar eru ekki allra meina bót. Búast má við, að áfram reyni einstakir frambjóðendur að vekja athygli á sér umfram aðra frambjóðendur á sama lista. Þannig má gera ráð fyrir, að umstang og kostnaður prófkjörs leggist ekki niður við breytinguna.

Persónulegar auglýsingar og kynning einstakra frambjóðenda mundu þó falla í ramma kosningabaráttu viðkomandi flokks og þannig væntanlega hafa á sér annan og mildari svip en hefur að undanförnu verið á baráttu einstakra frambjóðenda í prófkjöri.

Ekki má heldur líta svo á, að persónuleg spenna sé eingöngu af hinu illa. Prófkjör hafa ekki dottið úr lausu lofti ofan á flokkana. Þau eru komin til sögunnar, af því að flokkarnir þurftu að finna leiðir til að velja frambjóðendur, er sem flestir væru sáttir við.

Prófkjör hafa í mörgum tilvikum gefizt vel. Þau hafa stundum beinlínis verið nauðsynleg, sérstaklega eftir tímabil prófkjörsleysis. Þau hafa skorið úr, hvort valdamynztur flokksins í kjördæminu væri eðlilegt eða hvort gera þyrfti á því umtalsverðar breytingar.

Þegar Sjálfstæðisflokknum láðist fyrir fjórum árum að hafa prófkjör á Vestfjörðum, leiddi það til vandræða og sérframboðs. Í þetta sinn var haft prófkjör og verður ekki betur séð, en allt hafi fallið þar í ljúfa löð. Þannig geta prófkjör gert flokkum mikið gagn.

En það er eins og þau henti stundum og stundum ekki. Í sumum tilvikum skilja þau flokka eftir í rúst. Og það virðist ekki fara eftir aðferðinni, sem notuð er. Allar aðferðir geta reynzt vel eða illa, eftir því hvernig á stendur. Um þetta höfum við nýleg dæmi.

Í Norðurlandi vestra bjó Framsóknarflokkurinn til prófkjörsreglur, er áttu að hindra allt það böl, sem komið hefur óorði á prófkjör. Niðurstaðan var þveröfug á við það, sem til var ætlazt. Reglurnar framkölluðu harðvítug bræðravíg, sem tekur langan tíma að jafna.

Framsóknarflokkurinn liggur í sárum eftir prófkjör í nokkrum kjördæmum. Klofningsframboð Stefáns Valgeirssonar er boðað á Norðurlandi eystra. Þingmaður flokksins í Reykjavík er kolfallinn og kennir um vondum og ríkum öflum, sem hafi hertekið flokkinn.

Að fenginni prófkjörsreynslu má vona, að smám saman sé að mótast pólitískur vilji á Alþingi fyrir, að teknir verði upp óraðaðir listar í alþingiskosningum.

Jónas Kristjánsson

DV