Tvíeggjuð prófkjör

Greinar

Prófkjör eru tvíeggjað vopn, sem getur og hefur reynzt stjórnmálaflokkum ágæt aðferð til að afla sér meira fjöldafylgis en ella hefði orðið. Almennt finnst þáttakendum í prófkjöri þeir hafa fengið aukinn aðgang að mikilvægum ákvörðunum í stjórnmálum.

Prófkjör hafa rutt sér til rúms, af því að flokkar, sem nota prófkjör, fá með því tæki til að draga til sín fylgi frá öðrum flokkum. Þótt ekki sé krafizt flokksaðildar og stundum ekki einu sinni stuðningsyfirlýsingar, eru þátttakendur siðferðilega skuldbundnir flokknum.

Prófkjör eru þar á ofan mikilvæg aðferð til að skera úr djúpstæðum ágreiningi um menn og málefni innan flokks, án þess að hann leiði til fylgisrýrnunar eða klofnings. Þeir, sem verða undir í prófkjöri, sætta sig oftast við lýðræðislega niðurstöðu þess.

Engin rós er án þyrna. Prófkjör framkalla ýmis vandamál. Þau valda stundum sárindum, sem seint gróa, til dæmis þegar stuðningsmönnum annarra flokka er smalað til þátttöku eða þá að persónulegum dylgjum og rógi er beitt gegn frambjóðendum í hita leiksins.

Enn fremur baka prófkjör frambjóðendum mikinn kostnað í sumum tilvikum. Þetta er hreinn viðbótarþáttur í stjórnmálakostnaði þjóðarinnar og getur hæglega valdið spillingu gagnkvæmrar greiðasemi. Aldagömul reynsla er fyrir því, að æ sér gjöf til gjalda.

Óþægilegt er til þess að hugsa, að menn safni saman milljónum króna til að kosta vonina um þingsæti, sem ekki gefur nema þrjár milljónir króna í árstekjur. Við siglum að þessu leyti í kjölfar Bandaríkjanna, þar sem menn kaupa sér hreinlega þingsæti fyrir morð fjár.

Aðstæður ýmissa stjórnmálaflokka á ýmsum tímum eru misjafnar. Stundum kalla þær á prófkjör og stundum ekki. Til dæmis telur Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavík sig vera í svo góðum málum með fáa frambjóðendur og gott fylgi, að víkja megi frá prófkjöri að þessu sinni.

Reglur um prófkjör eru misjafnar eftir flokkum, kjördæmum og kosningum. Þau eru misjafnlega opin eða lokuð, með eða án girðinga, með númeruðum sætum eða opnum. Þetta sýnir, að enn hefur ekki verið fundin ein leið til að halda prófkjör, svo öllum líki.

Draga má úr vandamálum, sem fylgja prófkjörum, með því að festa framkvæmd þeirra í lög, þar sem ákveðinn sé sameiginlegur prófkjörsdagur og -staður þeirra flokka, sem ætla að hafa prófkjör, þannig að hver kjósandi greiði aðeins atkvæði hjá einum þeirra.

Bezta leiðin er að flytja prófkjörin hreinlega inn í kosningarnar sjálfar með því að hafa framboðslista óraðaða og láta hlutkesti ráða, hvar í stafrófsröðinni nafnalistarnir byrja. Þetta minnkar innanflokksátök og dregur úr kostnaði, sem annars fylgir prófkjörum.

Margir sakna persónutengdra einmenningskjördæma og finnst framboðslistarnir vera fjarlægir og ópersónulegir. Með óröðuðum listum má fella þennan kost einmenningskjördæmanna að nokkru inn í listakjördæmin og gera val þingmanna persónulegra en áður.

Sameiginlegt átak flokka þarf til að koma á fót einum prófkjörsdegi og -stað eða til að láta kjósendur raða frambjóðendum í sjálfum kosningunum. Það gerist ekki nema menn gefi sér góðan tíma til undirbúnings málsins, þegar yfirvofandi kosningar raska ekki ró.

Fréttir af ágreiningi um framkvæmd prófkjörs Framsóknarflokksins í Reykjavík og á Norðurlandi eystra minna á, að prófkjörsleiðin kallar á betri lausn.

Jónas Kristjánsson

DV