Útgerðarmenn keppast nú hver um annan þveran um að sækja um leyfi til innflutnings fiskiskipa án þess að hafa upp á að bjóða nein gömul skip til að flytja út í staðinn. Hjá stjórnvöldum bíða afgreiðslu um 12 umsóknir af þessu tagi.
Erlend fiskiskip eru með ódýrasta móti um þessar mundir vegna hnignunar fiskstofna og lokunar miða. Jafnframt virðast íslenzkir útgerðarmenn hafa tröllatrú á, að ríkið hlaupi um síðir undir bagga með vonlausri útgerð nýrra skipa.
Þótt ýmislegt megi gott um Steingrím Hermannsson sjávarútvegsráðherra segja, þá hefur hann verið allt of linur gagnvart þrýstingi útgerðarmanna, sem vilja ná sér í aukna aflahlutdeild á kostnað allra hinna útgerðarmanna landsins.
Allir hafa sætzt á, að hinn of stóri fiskiskipafloti sé stærsta meinsemd sjávarútvegsins. Takmarkaður afli dreifist á alltof mörg skip, alltof marga menn og alltof mikla olíu. Útgerðin er ekki eins samkeppnishæf og vera skyldi.
Auðvitað verður endurnýjun að eiga sér stað, svo að við sitjum ekki uppi með gömul og úrelt fiskiskip. En þá verður líka að taka gömlu skipin úr umferð, ekki bara sem svarar nýju skipunum, heldur töluvert umfram það.
Kjartan Jóhannsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra, hefur ásamt fleirum lagt fram á þingi frumvarp um, að nýjar viðbætur við flotann megi á ári hverju ekki fara fram úr fjórðungi af brottfalli skipa síðustu tvö ár á undan.
Í þessu frumvarpi felst skynsamlegt markmið. En það nær ekki árangri, nema lysthafendur nýrra skipa verði skyldaðir til að losa þjóðina við að minnsta kosti tvöfalt meiri brúttótonnafjölda í gömlum og úreltum fiskiskipum.
Kjartan Jóhannsson náði þeim árangri í ráðherratíð sinni að minnka flotann um 2000 tonn árið 1979. Árið 1978 hafði hann aukizt um 5000 tonn og um 4000 tonn árið 1977. Síðan Steingrímur varð ráðherra hefur aftur sótt í gamla horfið.
Búast má við, að fiskiskiptaflotinn aukist um 2000 tonn á þessu ári. Er þá hvorki meðtalinn neinn Þórshafnartogari né þær umsóknir, sem nú bíða afgreiðslu stjórnvalda. Steingrímur er greinilega ekki nógu harður af sér.
Hann gamnar sér nú við að láta setja um næstu helgi nýjar reglur um fiskiskipakaup, er geri honum kleift að losna við afgreiðslu sumra hinna tólf umsókna, sem hrjá hann um þessar mundir. Hann vill komast undan í flæmingi.
Steingrímur þarfnast ekki nýrra ja- og humm-reglna. Hann þarf grjótharðar reglur um, að hver sá, sem vill auka tonni við fiskiskipaflotann, sjái í alvöru um að losa sig eða aðra við tvö tonn í staðinn og án undanbragða.
Til þess að auðvelda útgerðarmönnum að standast svo strangar reglur er nauðsynlegt að stórauka styrki til niðurrifs úreltra skipa. Þannig má tryggja, að nauðsynleg endurnýjun og ynging flotans verði samfara minnkun hans.
Saga Þórshafnartogarans sýnir í hnotskurn, hvernig ævintýramenn geta nær endalaust haft ráðamenn að fíflum, jafnvel eftir að fjölmiðlar hafa upplýst, hvernig í pottinn er búið. Það mál ætti að vera Steingrími víti til varnaðar.
Honum ber að stefna markvisst að litlum flota tæknivæddra og sparneytinna skipa, hæfilega litlum til að ná þeim afla, sem okkur er óhætt að taka. Það markmið er svo fjarlægt, að hálfkák nær því ekki.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið