“Ekki er vitað til, að neinn hafi orðið fyrir slysi.” Þessi tvöfalda þvæla er einkennistexti íslenzkrar fjölmiðlunar. Í fyrri hluta málsgreinarinnar getur fjölmiðlungurinn hvorki fullyrt sjálfur um málsefni né borið neinn marktækan fyrir því. Hann brýtur fyrstu reglu blaðamennskunnar með því að fela sig að baki ónafngreindra heimildarmanna. Í seinni hlutanum fljúga slys um loftin og lenda á fólki. Eins og börn, sem sögð eru lenda á bílum og skemma þá. Einfalt og rökrétt er að orða svona: “Engan sakaði”. Eða “Enginn slasaðist”. Tvö orð segja skýra sögu, en tíu orð þyrla upp ryki.