Tvo þarf til.

Greinar

Misjafnlega gagnlegar eru tillögur um traustari frið í heiminum og minnkandi hættu á ragnarökum kjarnorkustyrjaldar. Beztar eru þær, sem byggja á, að tvo þarf til, svo að nothæft samkomulag megi nást milli austurs og vesturs.

Reynslan sýnir, að ráðamenn Sovétríkjanna eru ekki gefnir fyrir að standa við loforð, þótt skrifleg séu. Eitt skýrasta dæmið er Helsinki-samningurinn frá 1975, þar sem Brezhnev lofaði auknum mannréttindum heima fyrir.

Marklaust er að semja um frystingu og samdrátt vígbúnaðar, nema um leið sé samið um traust eftirlit, er jafnóðum geti leitt í ljós, hvort settum reglum sé fylgt. Til slíks hafa ráðamenn Sovétríkjanna verið tregir.

Mest gagn er að byggja á grunni, sem lagður hefur verið í viðræðum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um takmörkun á ýmsum sviðum kjarnorkuviðbúnaðar. Talið er, að Sovétríkin hafi staðið sæmilega við svonefnda SALT-samninga.

Komið hafa fram tillögur um, að Bandaríkin geti gefið gott fordæmi með því að lýsa yfir einhliða frystingu slíks viðbúnaðar af sinni hálfu um nokkurra mánaða skeið, meðan þeir gefi Sovétríkjunum tækifæri til að svara í sömu mynt.

Þetta byggist á þeirri skoðun, að Bandaríkin hafi þegar nóg kjarnorkuvopn til að hræða ráðamenn Sovétríkjanna frá leiftursókn til langþráðra heimsyfirráða, svo að frekara kapphlaup af bandarískri hálfu muni ekki auka öryggið.

Þetta er umdeilanlegt atriði, en freistandi, því að svo er nú komið, að fjöldi og hraði kjarnorkuvopna er orðinn svo mikill, að tæknileg mistök geta leitt til óviljandi kjarnorkustríðs og tilheyrandi ragnaraka.

Auðvitað er að minnsta kosti eins líklegt og hitt, að ráðamenn Sovétríkjanna fái vatn í munninn og reyni að bæta viðbúnað sinn á tíma bandarískrar frystingar. Þeir hafa hingað til hneigzt til að taka áhættu í útþenslustefnu.

Verst er þó, að ráðamenn Sovétríkjanna hafa á undanförnum áratug litið á alla eftirgjöf af vestrænni hálfu sem dæmi um linkind og úrkynjun, er færa eigi í nyt hugsjónarinnar um óhjákvæmilegan heimssigur þeirra.

Hina svonefndu þíðu áttunda áratugarins notuðu þeir til innrásar í Afganistan, aukins þrýstings á Austur-Evrópu, niðurskurðar mannréttinda heima fyrir og til að beita leppríkjum til hernaðar í Kampútseu, Angóla og Eþíópíu.

Þess vegna er líklegra, að þeir taki fremur mark á tilboðum um gagnkvæma frystingu heldur en einhliða bandaríska frystingu. Friðarvilja vesturs verður að fylgja fullkomin festa, ef takast á að mjaka austrinu til sátta.

Versti þrándur í götu samkomulags um frystingu og samdrátt vígbúnaðar undir ströngu eftirliti er þó friðarhreyfingin á Vesturlöndum. Tiltölulega einhliða starf hennar hefur gert ráðamenn Sovétríkjanna fastari fyrir.

Aðgerðir vestrænna friðarhreyfinga gegn vestrænum viðbúnaðaráformum hafa komið því inn hjá ráðamönnum Sovétríkjanna, að þeir geti haldið ótrauðir áfram vígbúnaði og útþenslu, meðan Vesturlönd logi í kjarnorkusundrungu.

Þannig er friðarhreyfing síðustu ára í rauninni meiri háttar friðarspillir og styrjaldarhvati, þótt óviljandi sé. Hún verður fyrst til gagns, er hún beinir þunga áherzlunnar að ráðamönnum Sovétríkjanna.

Jónas Kristjánsson.

DV