Tvöfaldar tryggingar

Greinar

Samkvæmt nýjum útreikningum Félags íslenzkra bifreiðaeigenda greiða íslenzkir bíleigendur mun meira fyrir bíltryggingu en nágrannarnir gera og raunar tvöföld iðgjöld sænskra bíleigenda. Þessu valda ýmis atriði, en einkum þó fákeppni í tryggingum á Íslandi.

Fleiri atriði eiga þátt í þessum mikla mun. Til dæmis eru tjón tíðari hér á landi en í löndunum, sem samanburðurinn nær til. Þrír aðilar eiga sök á því: ríkið, sem leggur ekki góða vegi; ökumenn, sem aka ekki vel; og tryggingafélög, sem sundurgreina áhættuþætti ekki vel.

Vegagerð þingmanna leggur megináherzlu á lagningu spotta víðs vegar um landið til að þjónusta atkvæði, þótt ódýrara sé að leggja færri og lengri leiðir í einu. Þetta étur upp vegafé landsins og kemur einkum niður á þéttbýlinu, sem situr á hakanum hjá Vegagerð þingmanna.

Enginn vafi er á, að vinnubrögð Vegagerðarinnar leiða til fleiri, meiri og dýrari slysa en ella væru. Einkum á þetta við um helztu þjóðleiðir Reykjavíkursvæðisins, sem mestu fjársvelti sæta. Í umferðarþunga svæðisins verða mörg þau slys, sem mest magna útgjöld tryggingafélaga.

Íslenzkir ökumenn eru annálaðir. Margir þeir, sem aka heima og erlendis, eru sammála um, að þeim finnist þeir vera öruggari í margfalt þyngri umferð erlendra stórborga en í smábæjarumferðinni á Íslandi. Erlendis aka menn skipulega, en hér aka menn óútreiknanlega.

Að mörgu leyti hefur umferðarómenning Íslendinga versnað. Fáir gefa stefnuljós áður en þeir beygja. Fyrr á árum gáfu margir stefnuljós í beygjunni sjálfri, svona til sagnfræðilegra upplýsinga fyrir nærstadda. Nú er orðið algengt, að menn gefi alls ekki stefnuljós.

Tryggingafélögin hafa ekki heldur fundið umbunarleiðir, sem duga til að hvetja ökumenn til að komast slysalaust leiðar sinnar. Þau bjóða að vísu afslætti fyrir tjónalaus viðskipti í líkingu við það, sem gerist erlendis, en það virðist ekki duga til að halda slysum í skefjum.

Tryggingafélög þurfa að flokka ökumenn í fleiri áhættuflokka. Til dæmis þarf að taka meira tillit til tíðra slysa af völdum nýliða í umferðinni. Ennfremur þarf að taka meira tillit til þess, hvort ökumenn eru bindindismenn á áfengi, því að áfengi er mesti slysavaldurinn.

Fyrst og fremst þurfa tryggingafélögin að láta gera stærðfræðilega útreikninga á fylgni umferðartjóna við sem flest atriði, sem reiknanleg eru, og haga iðgjaldatöflum í samræmi við það. Yfirleitt nota tryggingafélögin allt of lítið af tryggingastærðfræðilegum útreikningum.

Annað atriði, sem veldur háum iðgjöldum, er, að erlend tryggingafélög hafa ekki séð sér hag í að bjóða bíltryggingar á Íslandi. Aðeins eitt erlent tryggingafélag hefur haslað sér völl hér á landi og virðist ekki bjóða miklu betri kjör en innlendu fáokunarfélögin gera.

Erlend tryggingafélög gera ekki strandhögg hér á landi, af því að þau óttast slæmar viðtökur íslenzkra bíleigenda. Þau telja, að þeir muni halda tryggð við gömlu okurbúlurnar, þótt þeim sé gefinn kostur á lægri iðgjöldum, af því að þeir þjáist af skorti á verðskyni.

Þetta er sennilega mikilvægasti þröskuldurinn í vegi lægri iðgjalda. Íslenzkir bíleigendur eru íhaldssamir og vilja ekki leita yfir bæjarlækinn að betri tilboðum. Þeir vilja svo sem samkeppni að utan, en vilja ekki sjálfir taka neinn þátt í að brjóta fáokunina á bak aftur.

Tryggingamarkaðurinn er orðinn frjáls. Ekki er lengur við innlendu fáokunina eina að sakast. Bíleigendur sjálfir verða að bindast samtökum um fá lág iðgjöld að utan.

Jónas Kristjánsson

DV