Tvöfalt siðgæði

Greinar

Með hjálp vesturveldanna gerðu Þjóðverjar hreint fyrir sínum dyrum eftir síðari heimsstyrjöldina, viðurkenndu hryðjuverk sín, greiddu skaðabætur og gerðu ýmsa aðra yfirbót, sem lauk með áhrifamiklum og einlægum hætti í stjórnartíð Willy Brandt kanslara.

Japanar hafa aldrei gert hreint fyrir sínum dyrum á þennan hátt, þrátt fyrir kröfur nágrannaþjóðanna, sem urðu fyrir barðinu á hryðjuverkum þeirra í stríðinu. Fyrir bragðið hefur Japan aldrei orðið fullgildur félagi í vestrænu þjóðfélagi eins og Þýzkaland hefur orðið.

Yfirleitt gleymist, að fleiri en hinir sigruðu frömdu hryðjuverk í stríðinu. Stærstu hryðjuverk mannkynssögunnar, reiknuð á tímaeiningu, voru framin, þegar Bandaríkin vörpuðu kjarnorkusprengjum á óbreytta borgara í Hiroshima og Nagasaki undir lok styrjaldarinnar.

Bandamenn frömdu hryðjuverk á óbreyttum borgurum fjarri víglínunni, þegar þeir sprengdu Dresden, sem var ekki hernaðarlega mikilvæg borg, og frömdu ýmsar aðrar loftárásir, sem eingöngu var beint gegn óbreyttum borgurum, einkum börnum, konum og gamalmennum.

Í krafti sigursins hafa bandamenn aldrei gert hreint fyrir sínum dyrum að hætti Þjóðverja. Þótt rúmlega hálf öld sé liðin frá þessum skelfilegu atburðum, er samt sanngjarnt, að þeir verði teknir fyrir og afgreiddir með formlegum hætti hjá Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum.

Vesturveldin þurfa á þessu að halda, því að dómstóllinn er alþjóðleg staðfesting almenns gildis mannasiða, sem teknir hafa verið upp á Vesturlöndum á síðustu hálfri öld. Vesturlönd þurfa að gera upp skugga fortíðarinnar til að geta dæmt aðra fyrir hryðjuverk þeirra í nútímanum.

Siðferði baráttunnar gegn stríðsglæpum og öðrum hryðjuverkum má ekki verða tvöfalt. Annars öðlast baráttan ekkert innra gildi. Eitt verður yfir alla að ganga, þar á meðal Vesturlönd og ekki sízt Bandaríkin, sem hafa raunar hafnað Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum.

Þessi almenni dómstóll Sameinuðu þjóðanna er eðlilegt framhald sértækra stríðsglæpadómstóla, sem komið hefur verið á fót í kjölfar hryðjuverka í Rúanda í Afríku og á Balkanskaga í Evrópu og munu væntanlega ná lögum yfir ýmsa af ógeðfelldustu illmennum nútímans.

Því miður hafa Bandaríkin kosið að taka ýmsar hryðjuverkastjórnir inn í bandalag sitt gegn Osama bin Laden. Má þar nefna fyrrverandi Sovétlýðveldi norðan við Afganistan, einkum Uzbekistan, þar sem Karimov er við völd, einn verstu hryðjuverkamanna nútímans.

Í þessu óhreina bandalagi eru hryðjuverkastjórnir Rússlands og Kína, svo og Sádi-Arabíu og Ísraels. Bandalagið við Sádi-Arabíu er athyglisvert fyrir þá sök, að það ríki stofnaði og kostar ofsatrúarskólana, sem ólu upp hryðjuverkamenn Osama bin Ladens og aðra slíka.

Rétt er líka að minnast þess, að sjálfir talibanar eru skrímsli, sem Bandaríkin og Pakistan ræktuðu sameiginlega til að losna við Rússa frá Afganistan á sínum tíma, en misstu síðan tök á, svo sem títt er um slík skrímsli. En ríki verða að bera ábyrgð á skrímslum sínum.

Eðlilegt er, að öll þau ríki, sem hér hafa verið nefnd, svari fyrr eða síðar til saka hjá Alþjóðlega stríðsglæpadómstólnum fyrir hryðjuverk sín, bæði verk, sem þau fremja sjálf; verk, sem þau borga öðrum fyrir að fremja; og verk, sem þau hvetja aðra til að fremja.

Mannkynið í heild mun af einlægni styðja baráttuna gegn hryðjuverkum, ef hafnað verður tvöföldu siðgæði og eitt látið yfir alla hryðjuverkamenn ganga.

Jónas Kristjánsson

DV