Þorri Islendinga er vel stæður. Mikill meirihluti fjölskyldna á íbúð og bíl og leyfir sér ýmsan munað umfram nauðþurftir, svo sem ferðir til sólarstranda, aðra afþreyingu eða þátttöku í menningarstarfi.
Margt af þessu fólki er stundum eða alltaf í kröggum. En það er ekki vegna fátæktar, heldur vegna of mikils hraða í fjárfestingu í bíl, íbúð eða munaði. Fjárskortur hindrar ekki þetta fólk í að horfa með bjartsýni til framtíðar.
Þjóðin er mjög vel sett, að þessi öfluga miðstétt skuli vera alls ráðandi og að eiginleg auðstétt í erlendum stíl skuli tæpast vera til. Allur þorri þjóðarinnar er sjálfbjarga fólk með þeirri reisn, sem slíku fylgir.
Aðgangur Íslendinga að þessari vel stæðu miðstétt er hins vegar ekki sjálfvirkur. Fólk verður að fylla ákveðin skilyrði til að öðlast þátttöku í nútímanum og í vonum um bjartari framtíð. Um nokkrar leiðir er að velja.
Einn hópurinn er hátekjufólk vegna ábyrgðar, menntunar eða aðstöðu. Annar hópurinn er fólk með ríflega möguleika á uppmælingu eða aukavinnu. Þriðji hópurinn er fólk, þar sem eiginmaður og -kona vinna bæði úti.
Lífsstill nútímans á Íslandi krefst þess, að fólk fylli einhvern þessara þriggja flokka. Og það gerir raunar mikill meirihluti þjóðarinnar. Einmitt þess vegna vill oft gleymast sá hluti hennar, sem á engan þessara aðgöngumiða.
Veikt tryggingakerfi veldur því, að nokkur hópur fólks hefur ekki aðgang. Það er sumt eftirlaunafólk og lífeyrisþegar, aðrir en opinberir starfsmenn, svo og sumir öryrkjar, einstæðar mæður og fjölskyldur ofdrykkjumanna.
Annar hópur manna, sumpart sama fólkið, hefur ekki aðgöngumiða vegna hinna lágu launataxta á mörgum sviðum þjóðlífsins, einkum í þjónustu, verzlun og iðnaði. Lágmarkslaun eru hreinlega of lág hér í hátekjuþjóðfélaginu.
Láglaunafólk getur lifað míðstéttarlífi, ef það hefur góða möguleika á aukavinnu eða ef hjón vinna bæði úti. Tekjukerfi þjóðfélagsins byggist raunar á því, að einhvern veginn hafi hver fjölskylda að minnsta kosti hálfar aðrar launatekjur.
Sumt fólk á efri árum hefur ekki heilsu til aukavinnu fyrir aðgöngumiða. Annað fólk er í flokki einstæðra foreldra, sem bara hafa einfaldar tekjur, þurfa að sjá um heimili og geta því ekki stundað aukavinnu.
Tryggingakerfið, Mæðrastyrksnefnd, félagsmálastofnanir og fleiri aðilar reyna að hjálpa fólki, sem er utanveltu í nútíma Íslands. En þetta starf nýtur ekki nægilegs stuðnings hins fjölmenna meirihluta velsældarfólks.
Utangarðsfólkið er ekki eins áberandi í þjóðfélaginu og á kreppuárunum fyrir heimsstyrjöldina. Menn lesa frásögn Sigurðar A. Magnússonar um ævi barna undir kalstjörnu, en taka ekki eftir slíku ástandi nú.
Staðreyndin er sú, að undirstéttin í þjóðfélaginu er orðin svo fámetln, að hún hefur týnzt í hugum fólks. Menn sjá hana ekki í nágrenni sínu og halda, aó hún sé ekki til. Þetta athugunarleysi dregur úr mætti gagnaðgerða.
Enn eru börn að alast upp í húsnæði, sem ekki er heilsufarslega sómasamlegt. Enn eru börn að alast upp við fæði, sem ekki veitir nægan þroska. Og enn eru börn að alast upp við fjárskort, sem skipar þeim á óæðri bekk.
Ef við vildum sjá þessar staðreyndir íslenzks þjóðfélags, gætum við bætt verulega úr skák, einmitt af því að týnda stéttin er svo fámenn og velsældarstéttin fjölmenn.
Jónas Kristjánsson
Dagblaðið