Týnda þjóðin kaus

Greinar

Þegar úrslitaleikir eru á Wembley og Wimbledon, er sagt koma í ljós, að tvær þjóðir búi í Englandi. Önnur sé upptekin af fótbolta og viti varla, að tennis sé til. Hin sé upptekin af tennis og viti varla, að fótbolti sé til. Þannig er alhæft um endurspeglun enskrar stéttaskiptingar.

Komið hefur í ljós, að á Íslandi er stéttaskipting, sem gefur skemmtileg og um leið hættuleg tilefni til alhæfingar. Þessi stéttaskipting þarf ekki að fylgja tekjum í þjóðfélaginu, aldri, búsetu eða kynjum. En alténd eru stjórnmálaskýrendur flestir sömu megin þils í skiptingunni.

Snemma á árinu var viðkvæði stjórnmálaskýrenda, að þjóðin gerði í forsetakosningum uppreisn gegn stjórnmálamönnum og veldi í staðinn vammlaust fólk úr menningargeiranum, svo sem alþýðlega fornleifafræðinga og leikhússtjóra, svo sem dæmin voru sögð sanna.

Ef stjórnmálaskýrendur hefðu verið spurðir, hvort Ólafur Ragnar Grímsson ætti möguleika í forsetakosningum, hefðu allir svarað neitandi. Í fyrsta lagi væri hann virkur stjórnmálamaður og í öðru lagi einn umdeildasti og óvinsælasti stjórnmálamaður landsins.

Þeir hefðu bent á, að fáir stjórnmálamenn væru eins harðvítugir í pólitískum slagsmálum og hann, svo sem ljóst væri úr fréttum og þingtíðindum. Þeir hefðu bent á, að skoðanakannanir sýndu, að fleiri landsmenn væru andvígir honum en nokkrum öðrum stjórnmálamanni.

Svo fór Ólafur Ragnar í framboð, fór beint á toppinn í skoðanakönnunum og hélt því sæti á leiðarenda. Aðrir stjórnmálamenn hættu að gæla við framboð og vöktu um leið athygli á, að þetta væri valdalaust kurteisisembætti, alls ekki fyrir pólitíska vígamenn.

Á lokaspretti kosningabaráttunnar tóku sig saman nokkrir þekktir menn, sem töldu sig eiga um sárt að binda vegna pólitískrar ofkeyrslu Ólafs Ragnars. Þeir fengu birtar í Morgunblaðinu frægar auglýsingar, sem þjöppuðu fólki enn fastar um frambjóðandann.

Í auglýsingunum var forsetaefnið elt uppi af þeirri fortíð, sem stjórnmálaskýrendur höfðu sagt, að yrði því að falli. Þeir þekktu ekki kjósendur, sem létu sér fátt um finnast og bættu svo sem einu prósenti ofan á fylgi hans, svo sem til að hella salti í sár andstæðinganna.

Ýmsir stjórnmálaskýrendur höfðu í millitíðinni reiknað út, að fylgi Guðrúnar Pétursdóttur mundi af pólitískum ástæðum að mestu renna til Péturs Hafstein og minnka bilið milli tveggja efstu frambjóðendanna. Í staðinn rann fylgi hennar til Guðrúnar Agnarsdóttur.

Þannig sitja stjórnmálaskýrendur eftir með sárt ennið og þurfa að skilgreina kjósendur að nýju. Straumar forsetakosninga liggja engan veginn eins og áður var talið og engum er lengur ljóst, hvað kjósendur hafa í huga, þegar þeir eru að velja úr hópi frambjóðenda.

Hugsanlega er verið að senda skilaboð til kolkrabbans, það er að segja þess nána sambands, sem er milli nokkurra helztu fyrirtækja landsins og sem hefur Sjálfstæðisflokkinn að pólitískum málsvara. Andstaða Ólafs Ragnars við þessi öfl sé færð honum til tekna.

Ef þetta er rétt, er ekki hægt að skilja, af hverju þessi sama þjóð gengur aftur og aftur til alþingiskosninga og kýs kolkrabbann yfir sig, þegar um raunveruleg völd er að tefla. Ef um viðvörun er að ræða í forsetakosningum, er hún því marklaus, þegar til kastanna kemur.

Stjórnmálaskýrendur munu næstu árin puða við að skilgreina og flokka þjóðina að nýju og reyna að alhæfa, hver sé Wembley-þjóðin að baki Wimbledon-þjóðinni.

Jónas Kristjánsson

DV