Tyrkland er boðflenna

Greinar

Við þekkjum tvískinnung Tyrklands af viðskiptum Sophiu Hansen við réttarkerfi, sem er vestrænt á ytra borði og austrænt að innihaldi. Í senn sækir Tyrkland um aðild að stofnunum vestursins á borð við Evrópusambandið og færist í átt til austrænnar fortíðar.

Ofsóknir Tyrklands á hendur minnihlutaþjóð Kúrda hafa aukizt með árunum, þótt þær brjóti allar reglur um aðild að vestrænu samfélagi. Svona haga til dæmis Spánverjar sér ekki gegn Böskum. Fara þarf til Serbíu og Íraks til að finna meiri grimmd en þá tyrknesku.

Kúrdar mega ekki tala tungu sína opinberlega. Þeir mega ekki skrifa á henni og ekki heldur kenna hana í skólum. Stjórnmálamenn og blaðamenn, sem segja frá atburðum í Kúrdistan eða lýsa samúð með málstað þeirra, eru umsvifalaust dæmdir til fangavistar.

Sem dæmi um ástandið í Tyrklandi má nefna, að hvergi í heiminum er eins mikið um, að blaðamenn séu ofsóttir, drepnir og fangelsaðir fyrir að sinna störfum sínum. Samt er þetta ríki inni á gafli í vestrænu samfélagi með aðild sinni að Atlantshafsbandalaginu.

Endalausar tilraunir hafa verið gerðar til að gera Tyrki húsum hæfa á Vesturlöndum. Reynt hefur verið að leiða þeim fyrir sjónir, hvernig vandi minnihlutaþjóða hefur verið minnkaður í Evrópu og hvernig Vesturlönd leysa ágreining sín á milli án hernaðaraðgerða.

Tyrkland lét aðild að Atlantshafsbandalaginu ekki aftra sér frá innrás í Kýpur í skjóli Bandaríkjanna, sem löngum hafa litið á Tyrkland sem bandamann gegn Sovétríkjunum sálugu. Innrásin í Kýpur er eina dæmið, sem til er um hernað Natoríkis gegn öðru Natoríki.

Að undirlagi Mústafa Kemal Ataturk gerði tyrkneski herinn snemma á öldinni tilraun til að gera Tyrkland evrópskt. Tekið var upp latínuletur og vestrænn klæðaburður, stjórnkerfið lagað að evrópskum formum og lagt bann við ýmsum myndum róttækrar íslamstrúar.

En herinn náði bara formsatriðunum, ekki innihaldinu. Tyrkneskir herforingjar hafa aldrei skilið, að vestrið er ekki bara form, heldur einnig innihald, svo sem mannréttindi. Þeir hafa til dæmis aldrei skilið, að pólitísk vandamál leysast ekki með íhlutun hersins.

Hvað eftir annað hefur tyrkneski herinn steypt löglega mynduðum ríkisstjórnum, ef þær hafa staðið sig illa eða gælt við íslamstrú. Þar með hefur herinn komið í veg fyrir, að þarlendir stjórnmálamenn taki út vestrænan þroska með því að bera ábyrgð á gerðum sínum.

Turgut Özal var sá forsætisráðherra og forseti, sem ákafast þóttist vera vestrænn og harðast reyndi að koma Tyrklandi inn í Evrópusambandið. Samt gerði hann enga tilraun til að lina þau sérkenni, sem hafa alltaf komið í veg fyrir, að Tyrkir væru taldir í húsum hæfir.

Tyrkir kvarta sáran undan, að Evrópusambandið ástundi misrétti í vali aðildarríkja og taki önnur ríki fram fyrir í biðröðinni. Evrópumenn spyrja á móti, hvernig gangi að koma vestrænu innihaldi í tyrknesk form og fá engin nothæf svör, því að ekkert gerist.

Allt frá dögum Ataturk hefur Tyrkland rambað á landamærum austurs og vesturs. Það hefur ekki getað ákveðið, hvar það á heima. Á valdatíma Özal hófust þó gælur við íslam, sem benda til, að smám saman muni Tyrkland finna sér stað í samfélagi íslamskra þjóða.

Tyrkland hefur hunzað ótal tækifæri til að koma til móts við innra eðli vestræns samfélags. Það er boðflenna, sem ekki á heima í Atlantshafsbandalaginu.

Jónas Kristjánsson

DV