Tyrkland í kuldanum

Punktar

Tyrkir hafa allra síðustu misserin fetað hratt í átt til vestræns lýðræðis. Kúrdar hafa fengið aukin mannréttindi þar í landi. Í þessari viku var afnumin dauðarefsing á friðartímum og afturkallaður dauðadómurinn yfir Abdullah Ocalan, skæruliðanum frá Kúrdistan. Fyrir þinginu liggja lagafrumvörp um aukið tjáningar- og félagafrelsi í landinu. Samt er Tyrkland ekki á nýrri tímaáætlun Evrópusambandsins um inntöku nýrra ríkja, samkvæmt fréttaleka úr höfuðstöðvum sambandsins í International Herald Tribune í dag. Á þessum ótryggu tímum í Miðausturlöndum hefði Evrópa einmitt þurft að senda Tyrklandi skýr skilaboð um, að ríkið væri hluti af vestrænu samfélagi. Evrópusambandið þarf að láta af villu síns vegar í tæka tíð fyrir þingkosningarnar í Tyrklandi 3. nóvember, ella munu vestrænt þenkjandi stjórnmálamenn og -flokkar eiga undir högg að sækja í kosningunum.