Tyrkland úr Nató

Greinar

Tyrkland hefur ögrað samfélagi þjóðanna með því að ráðast með 35.000 manna herliði inn á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna í Norður-Írak. Tyrkneski herinn stundar þar sína hefðbundnu iðju að misþyrma óbreyttum borgurum, brenna ofan af þeim og drepa þá.

Þetta er hið sama og tyrkneski herinn hefur árum saman stundað í héruðunum sín megin landamæranna. Þar hefur hann eytt byggðum og knúið fólk til að lifa í eins konar fangabúðum, sem herinn hefur komið á fót að undirlagi miðalda-stjórnvalda í Ankara.

Þetta er liður í ofsóknum Tyrkja gegn minnihlutahópi Kúrda, sem þeir kalla Fjalla-Tyrki. Flestar ríkisstjórnir í Ankara hafa reynt að skammta Kúrdum borgaraleg réttindi, bannað notkun kúrdísku í skólum, svipt þingmenn Kúrda þingsetu og eyðilagt uppskeru Kúrda.

Ofsóknir Tyrkja gegn Kúrdum eru svipaðar og ofsóknir Íraka gegn þeim. Atferli Saddams Husseins í Írak leiddi til þess, að vestræn ríki Persaflóastríðsins og Sameinuðu þjóðirnar gerðu norðurhluta Íraks að sérstöku verndarsvæði sínu, sem það er enn þann dag í dag.

Samfélag þjóðanna má ekki láta Tyrki komast upp með innrásina á verndarsvæðið. Það er nóg, að þeir ofsæki minnihlutahópa innan landamæra sinna, þótt þeir fari ekki með fjölmennan her inn á verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna til að ofsækja þar minnihlutahópa.

Samfélag þjóðanna hefur illu heilli látið Tyrki komast upp með ofbeldi gegn Kýpur, sem þeir hernámu að nokkru. Hermenn Sameinuðu þjóðanna eru þar enn á verði við vopnahléslínuna. Innrás Tyrkja í Kúrdalönd Sameinuðu þjóðanna minnir á þann gamla glæp.

Evrópusambandið hefur fordæmt hernað Tyrkja, en Bandaríkin hafa talað út og suður. Er afstaða stjórnar Clintons í Washington í samræmi við aðra eymd þeirrar stjórnar í utanríkismálum, er hún klúðrar hverju málinu á fætur öðru og skiptir um skoðanir á færibandi.

Bandaríkin hafa löngum stutt stjórnvöld í Tyrklandi af því að landið átti landamæri að Sovétríkjunum sálugu. Aðild Tyrkja að Atlantshafsbandalaginu og mikill herbúnaður þeirra neyddi Sovétríkin í gamla daga til að hafa hluta herstyrks síns í Kákasus, fjarri Evrópu.

Nú eru Sovétríkin látin og hernaðarlegt mikilvægi Tyrklands er annað og minna en það var. Það er því tímabært fyrir stjórnvöld í Washington að endurmeta stuðning við ríki, sem margoft hefur sýnt, að það á ekki heima í samfélagi vestrænna þjóða og er þar bara boðflenna.

Það er afar erfitt að sætta sig við, að ofbeldisríki af þessu tagi skuli vera með okkur í Atlantshafsbandalaginu og njóta verndar þess. Það er afar erfitt að sætta sig við, að Atlantshafsbandalagið horfi á ofbeldisríkið gera innrás á sérstakt verndarsvæði Sameinuðu þjóðanna.

Tyrkland hefur lengi verið, er enn og ætlar sér greinilega áfram að vera svartur blettur á Atlantshafsbandalaginu. Það hefur komizt upp með það og hefur nú fengið óréttmætan viðskiptasamning við Evrópusambandið. Tyrkland heimtar fulla aðild að sambandinu í þokkabót.

Þar sem Tyrkir hafa nú niðurlægt Sameinuðu þjóðirnar og Atlantshafsbandalagið mætti vænta þess, að augu vestrænna leiðtoga opnuðust fyrir vandamálum, sem fylgja því að hafa rótgróið ofbeldisríki við brjóst sér. En því miður er eymd vestrænna leiðtoga takmarkalítil.

Bezt væri að losna við Tyrki úr Atlantshafsbandalaginu, svo að við þurfum ekki framvegis að taka ábyrgð á miðaldaframferði ríkis með aldagamla grimmdarhefð.

Jónas Kristjánsson

DV