Úlfar og sauðir

Greinar

Bandarískir neytendur hafa margir hverjir komið sér upp símsvara, sem segir símasölumönnum að leggja á. Sumir hafa fengið sér stimpil með textanum: “Með því að framselja þessa ávísun samþykkir þú að nota ekki neinar upplýsingar, sem koma fram á henni.

Bandarískir neytendur láta gjarna taka nöfn sín og númer út af þjóðskrám, sem hagstofur leigja kaupsýslumönnum. Þeir kanna, hvað sagt er um þá á svörtum listum um greiðslusögu skuldara. Þeir nota peningaseðla, en ekki plast, og neita að gefa upp kennitölur sínar.

Í Kaliforníu gengur þetta svo langt, að helmingur símeigenda hefur látið aftengja númeraflutning símtækja, svo að þeir geti hringt án þess að símanúmer þeirra komi fram á viðtökusímanum. Þeir geta þá spurt um vörur án þess að lenda í símaskrám sölumanna.

Samanlagt sýna slík dæmi, að bandarískir neytendur eru miklu meðvitaðri um stöðu sína heldur en íslenzkir neytendur. Þeir láta ekki bjóða sér neitt, sem þeir kæra sig ekki um. Þeir beita hörku, ef þeim finnst, að kaupsýslumenn láti sér ekki segjast.

Allt er þetta frjálst. Sumir vilja vera á listum, svo að þeim séu sendar upplýsingar eða þeir fái aðgang að gagnlegum tilboðum. Aðrir vilja frið. Niðurstaðan er sú, að menn geti meira eða minna ráðið, hversu samþættir þeir eru eða einangraðir í vefjum viðskiptanna.

Flæði persónulegra upplýsinga er í sjálfu sér hvorki gott né vont. Það skiptir hins vegar máli, að hver einstaklingur ákveði sjálfur, hvort upplýsingar um hann séu öðrum aðgengilegar eða ekki. Slíkar ákvarðanir taka bandarískir neytendur, en íslenzkir ekki.

Bandarískir neytendur hafa líka ákveðnar skoðanir á því, hvaða upplýsingar eigi að koma fram á umbúðum neyzluvöru. Þeir hafa knúið fram umbúðamerkingar, sem um margt taka fram merkingum Evrópusambandsins, er hafa verið teknar upp hér á landi.

Bandarískir neytendur geta til dæmis lesið, hversu mikið er af kolvetnum, fitu og próteini í mat. Og þeir geta lesið, hve miklu af sykri hefur verið hellt í vöruna umfram það, sem er í henni frá náttúrunnar hendi. Þetta geta íslenzkir neytendur hins vegar ekki.

Með líkingu við dýraríkið má segja, að bandarískir neytendur séu úlfar, en íslenzkir neytendur séu sauðir. Svo mikill munur eru á viðhorfum almennings í þessum löndum, að hér sætta menn sig við, að Hollustuvernd kanni ekki réttmæti vörulýsinga á umbúðum.

Neytendaviðhorf eiga hér svo erfitt uppdráttar, að menn halda tryggð við gamla okrarann, þegar ný fyrirtæki koma til sögunnar, bjóða lægra vöruverð og knýja okrarann til að lækka sig. Neytendur flytja þá ekki viðskipti sín, heldur bíða eftir verðlækkun okrarans.

Þessum viðhorfum verður ekki breytt með lagasetningum eða fjárveitingum til neytendavarna, þótt slíkt geti hjálpað til. Það eru fyrst og fremst viðhorf fólksins sjálfs, sem koma í veg fyrir, að það nái rétti sínum. Íslendingar hafa bara ekki áhuga á rétti sínum.

Bandaríkjamaðurinn lítur á sig sem borgara, en Íslendingurinn lítur á sig sem þegn. Það er fleipur eitt, að Íslendingar séu sjálfstæðir í hugsun. Þvert á móti er undirgefni og þrælslund rík í þjóð, sem aldrei í sögu sinni hefur risið upp gegn forréttindastéttunum.

Ef til vill er þetta eitt af því, sem lagast smám saman, þegar byrjað hefur verið að kenna fjármál og neytendamál í skólum í samræmi við nýboðaða skólastefnu.

Jónas Kristjánsson

DV