Úlfurinn er enn á ferð

Greinar

“Úlfur, úlfur” er hrópað í annað sinn á skömmum tíma á Vestfjörðum. Fyrir þremur mánuðum sögðu nokkrir framámenn Vestfjarða, að ríkisstjórnin og Landsbankinn væru að drepa Vestfirði. Þeir létu Byggðastofnun heimta, að útvegaðar yrðu 300 milljónir króna í sárabætur.

Þá kom þó í ljós við skoðun, að atvinnuástand var betra á Vestfjörðum en í öðrum landshlutum. Atvinnutekjur á mann voru meiri þar en annars staðar og atvinnuleysi miklu minna. Sums staðar vestra var meira að segja notað erlent farandverkafólk til að magna veltu.

Nú er aftur hrópað “Úlfur, úlfur” á Vestfjörðum og meira að segja með auknum þunga. Innihaldið að baki neyðarópsins virðist að þessu sinni vera þetta: “Við höfum farið svo óvarlega með þorskkvótann okkar, að það þarf að verðlauna okkur með auknum þorskkvóta.”

Enn þann dag í dag er atvinna meiri á Vestfjörðum en annars staðar og tekjur fólks meiri. En á Vestfjörðum breiðist út ótti um, að þessu góðæri fari að linna, því að of mikil sókn á fyrri hluta kvótatímabilsins muni leiða til, að leggja þurfi fiskiskipum á síðari hlutanum.

Krafan um aukinn kvóta á sér hljómgrunn í kenningum um, að fiskifræði nútímans sé ónákvæm fræðigrein. Bent hefur verið á, að hugsanlegt sé, að ýmis ómæld atriði hafi jafn mikil eða meiri áhrif á viðgang fiskistofna en þau atriði, sem Hafrannsóknastofnunin hefur mælt.

Ýmsir aðilar og þar á meðal fræðimenn hafa bent á samræmi milli viðgangs íslenzkra fiskistofna og ýmissa atriða á borð við breytilegar vindáttir hér við land eða þá aðstæður við Jan Mayen eða í Barentshafi. Aðrir hafa bent á misræmi árgangsstærða og nýliðunar.

Skammt er frá slíkum efasemdum yfir í fullyrðingar um, að það, sem gæti staðizt, hljóti að standast. Þannig var einu sinni reiknað út samræmi milli vegalengda í göngum píramídans mikla og veraldarsögunnar og búin til fræðigrein, sem kölluð hefur verið píramídafræði.

Reiknilíkön Hafrannsóknastofnunar gefa án efa takmarkaða mynd, sem þarf að víkka og bæta eftir því sem rannsóknatækni eykst. Hitt er vafasamt að hafna þessum reiknilíkönum á grundvelli hugarfars píramídafræðinnar, jafnvel þótt um rökstuddar getgátur sé að ræða.

Alveg eins og skammt er frá rökstuddum getgátum yfir í kenningakerfi, þá er skammt frá kenningakerfum yfir í óskhyggju. Sérstaklega er þetta hættuleg braut, þegar hagsmunaaðilar telja henta sér að grípa til óskhyggju, sem byggist á hinum rökstuddu getgátum.

Niðurstaðan er alltaf sú sama. Því er haldið fram, að óhætt sé að veiða meira en kvótanum nemur. Því er aldrei haldið fram, að veiða eigi minna en kvótanum nemur. Þetta byggist auðvitað á samtvinnun hagsmuna og óskhyggju, sem hvílir á grunni rökstuddra getgátna.

Einn stór galli er við þá stefnu, að veiða megi meira en sem kvótanum nemur. Gallinn er, að ekki verður aftur snúið. Ef hin gagnrýndu reiknilíkön reynast hafa verið betri en engin, er of seint að byggja stofnana upp að nýju. Þeir eru horfnir eins og norsk-íslenzka síldin.

Við höfum víti að varast á þessu sviði. Færeyingar gátu ekki sætt sig við aflatakmörkun á borð við kvótakerfi. Þeir töldu, að meiri fiskur væri í sjónum en fiskifræðingar héldu fram. Þeir leyfðu óskhyggju að ráða ferðinni og glötuðu snögglega efnahagslegu sjálfstæði sínu.

Þótt tekið sé tillit til efasemda um gildi fiskifræða, er á þessu stigi ekki nein ástæða til að taka þá áhættu að leyfa meiri afla við Vestfirði en sem nemur kvótanum.

Jónas Kristjánsson

DV