Um næstu ríkisstjórn.

Greinar

Ríkisstjórnin átti að segja af sér á sunnudaginn var, þegar kosningaúrslit höfðu þegar sýnt, að hún var í miklum minnihluta á nýkjörnu alþingi. Drátturinn til fimmtudags er engin skrautfjöður í hatti forsætisráðherra.

Undanbrögð og véfréttir hans í fjölmiðlum voru ekki í samræmi við tilfinningu þjóðarinnar fyrir réttum vinnubrögðum. Enda tóku samráðherrar hans af skarið, fyrst í fjölmiðlum og síðan á ríkisstjórnarfundi í gær.

Ólafur Jóhannesson sagði í blaðaviðtali eftir kosningarnar: “Þótt það sé bókstaflega rétt, að ríkisstjórn þurfi ekki að víkja nema fyrir vantrausti, hefur það ekki tíðkazt hér langalengi annað en að stjórn fari frá, þegar hún er komin í minnihluta.”

Nógu erfitt verður að mynda nýja ríkisstjórn, þótt fráfarandi forsætisráðherra sé ekki um leið að gefa í skyn, að vel sé hugsanlegt, að hann sitji áfram um óákveðinn tíma og gefi jafnvel út bráðabirgðalög, sem enginn þingmaður styður.

Eðlilegt er, að utanþingsmaðurinn Geir Hallgrímsson hafi fyrsta umboð til myndunar nýrrar ríkisstjórnar, þar sem hann er formaður stærsta og raunar langstærsta flokksins, hins eina, sem getur myndað tveggja flokka stjórn.

Að vísu unnu Bandalag jafnaðarmanna og Samtök um kvennalista meira á en Sjálfstæðisflokkurinn. Segja mætti, að boltinn ætti fyrst að fara til þeirra sem meiri sigurvegara. En þingstyrkur beggja er hreinlega of lítill til slíks.

Rétt er að taka fram, að í hæsta máta er óeðlileg sú skoðun Geirs, að vel komi til greina, að hann myndi minnihlutastjórn, ef ekki tekst að koma á meirihlutastjórn. Engan veginn er tímabært að gefa í skyn, að minnihlutastjórn komi til álita.

Á hugsanlega minnihlutastjórn þýðir ekki að minnast fyrr en leiðtogar flokkanna hafa hver á fætur öðrum gefizt upp við að mynda meirihlutastjórn. Og satt að segja yrði minnihlutastjórn 23 þingmanna flokks ósjálfbjarga í núverandi efnahagsástandi.

Sjálfstæðisflokkurinn á að hafa möguleika á að ná samkomulagi um meirihlutastjórn, þótt hann sé til hægri í hinu pólitíska litrófi. Til dæmis er hann að þingmannaskipan í miðjunni í jafnvægi suðvesturhornsins og strjálbýlisins.

Hann getur myndað tveggja flokka dreifbýlisáttarstjórn annaðhvort með Framsókn eða Alþýðubandalagi eða þriggja flokka suðvesturhornsstjórn með Alþýðuflokki og öðrum nýju flokkanna, svo að flókið dæmi sé einfaldað.

Að vísu er torvelt að sjá, að samstarf geti tekizt með Sjálfstæðisflokki og Alþýðubandalagi. Hið síðarnefnda yrði að fórna svo miklu í varnarmálum og álmálum, að það yrði ekki þar á ofan til viðræðu um raunhæfar efnahagsaðgerðir.

Þá er ekki auðvelt að sjá, að Bandalag jafnaðarmanna geti farið í stjórn með neinum eftir yfirlýsingu Vilmundar Gylfasonar fyrir kosningar. Stjórn Sjálfstæðisflokks, Alþýðuflokks og Kvennalista er því minna ólíklegur kostur.

Einfaldast væri, ef Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn gætu komið sér saman um stjórn og efnahagsstefnu, sem hæfist með niðurtalningu í stíl Framsóknarflokksins. Þar með hefði Framsókn náð sér í forsendu fyrir stjórnarþátttöku.

En nauðsynlegt er, að nýkjörið alþingi verði nú þegar kallað til starfa, hvort sem gengur illa eða mjög illa að mynda nýja ríkisstjórn, því að hin gamla þarf sem starfsstjórn aðstoð þess í aðkallandi efnahagsaðgerðum.

Jónas Kristjánsson

DV