Um Svissara og sveitamenn.

Greinar

Í Straumsvík er undarlegt álver, sem tapar ógnvekjandi upphæðum, þótt það búi við eitt heimsins lægsta orkuverð slíkra fyrirtækja og óvenjumikla sjálfvirkni í vinnslu, hvort tveggja tilefni hagkvæms rekstrar.

Ísal greiðir Landsvirkjun tæplega 0,7 sent fyrir kílówattstundina. Ný álver austan hafs og vestan þurfa að greiða rúmlega sjö sinnum meira eða 5 sent á kílówattstundina. Samkeppnisforskot Ísals er því gífurlegt.

Þegar aðstaðan er frábær og útkoman hörmuleg, er eðlilegt, að menn leiti skýringa í kunnum aðferðum fjölþjóðafyrirtækja við að millifæra tap og hagnað til að gera skatta sem lægsta. Þær aðferðir eru bæði margar og sniðugar.

Tap má búa til hjá dótturfyrirtækjum með háu verði móðurfyrirtækis á hráefnum, rekstrarvörum og fjármagni annars vegar og lágu verði til móðurfyrirtækis á fullunninni afurð dótturfyrirtækjanna hins vegar.

Eftir að hafa tekið tillit til sumra athugasemda móðurfyrirtækis Ísals hefur brezk endurskoðunarstofa íslenzka ríkisins komizt að þeirri niðurstöðu, að með ýmsum brögðum hafi um 42 milljón króna skattgreiðslur gufað upp.

Af þessu verður íslenzka ríkið að bera um 15 milljónir frá árunum 1975-1979 undir alþjóðlegan gerðardóm. 27 milljónum ársins 1980 hefur fjármálaráðuneytið hins vegar náð með millifærslum, sem álmenn munu kæra fyrir sama dómstóli.

Engin ástæða er til að óttast niðurstöðu gerðardómsins. Hin brezka endurskoðunarstofa hefur unnið mikið og vandað starf. Og dómstóllinn getur vafalaust fengið gögn, sem Ísal hélt fyrir endurskoðendunum.

Þetta mál er lærdómsríkt, þótt fjárhæðirnar í húfi séu ekki umtalsverðar í samanburði við gjána, sem er milli lágs orkuverðs til Ísals annars vegar og taprekstrar fyrirtækisins hins vegar. En lærdómurinn þarf að vera réttur.

Tilgangslaust er að reka hið meinta skattsvikamál frekar í fjölmiðlum, þótt stuðningsmenn og andstæðinga Ísals langi til að skiptast á skeytum. Til þess er dómstóll á borð við gerðardóm, að unnt sé að fá botn í svona mál.

Mikilvægara er að kanna, hvort unnt verði að lagfæra hið sérdeilis lága orkuverð. Opinber svör álmanna um daginn voru ekki sérlega jákvæð, en Steingrímur Hermannsson ráðherra telur meira hafa komið út úr einkasamtölum.

Komið hefur fram, að fulltrúar móðurfyrirtækisins telji tvöföldun álversins vera eina helztu forsendu hækkaðs orkuverðs. Um slíkt á auðvitað að ræða, því að álver eru þjóðhagslega hagkvæm, þótt ekki komist hver eyrir til skila.

Gaman væri að kynnast hinum bókhaldslegu töfrabrögðum, er tvöföldun hallarekstrarfyrirtækis og hækkun á orkugreiðslum þess á að leiða til nýs og betra gróðafyrirtækis í hjartkærri sameign Svisslendinga og Íslendinga.

Með álsamningnum gamla sögðu álmenn skák og mát. Fróðlegt væri að vita, með hvaða rétti samningamenn Íslendinga telja sig geta teflt sómasamlega í næstu skák um orkuverð og stækkun. Altjend ekki hinir sömu og áður.

Ósigrar okkar í Straumsvík hafa lengi verið hemill á eðlilegri orkuiðnvæðingu landsins. Það væru því bæði merkileg og æskileg tímamót, ef nú væri hægt að ganga svo til samninga, að sveitamaðurinn sé ekki hafður að fífli.

Jónas Kristjánsson

DV