Umbi umbanna

Greinar

Umboðsmaður Alþingis er orðinn svo þreyttur á fyrirlitningu ráðherra og ráðuneytisstjóra fjármála á embætti umbans að hann hefur klagað ráðuneytið fyrir forsætisráðherra og forseta Alþingis. Í greinargerð segir hann að ráðuneytið magni bölið sem það á að bæta.

Erfitt er sjá forsætisráðherra og forseta Alþingis sem eins konar yfirumba, sem aðrir umboðsmenn þurfi að kæra sín mál til, þegar ráðuneyti svarar ekki bréfum þeirra í meira en heilt ár og leggur sig á meðan í líma við að starfa þvert gegn efnisatriðum bréfanna.

Íslenzka stjórnkerfið er svo fjandsamlegt venjulegu fólki að umboðsmaðurinn er að drukkna í kærum. Stofnað hefur verið sérstakt embætti umboðsmanns barna og forsætisráðherra hefur stungið upp á að efnt verði til þriðja umbans, umboðsmanns skattgreiðenda.

Ríkisskattstjóri hefur raunar beðið ríkisendurskoðun um að rannsaka, hvort ásakanir um misbeitingu valds héraðsskattstjóra og ríkisskattstjóra eigi við rök að styðjast. Ekki hefur samt enn verið auglýst eftir reynslusögum almennings utan úr bæ, en þær eru nægar.

Neytendasamtökin hafa lagt til, að stofnað verði sérstakt embætti umboðsmanns neytenda. Vegna aukinnar þekkingar í sölu- og markaðstækni hefur hallað á neytendur í viðskiptum og þjónustu. Þeir geta margir hverjir ekki varizt nútímavæddum seljendum.

Fjölgun umboðsmanna er raunar afar brýn. Bezt væri, að slagkraftur þeirra væri sameinaður í einni umboðsmannastofnun á vegum Alþingis. Þeir gætu þá sparað í skrifstofuhaldi og samnýtt rannsóknir, stutt betur hver annan og lært meira af reynslu hver annars.

Hrokinn í fjármálaráðuneytinu er ekkert einsdæmi, þótt hann sé fyrirferðarmestur vegna mikilla umsvifa ráðuneytisins. Hrokinn nær niður í örlitlar stofnanir á borð við Vátryggingaeftirlitið, sem árum saman hefur neitað að gefa Alþingi nauðsynlegar upplýsingar.

Ekki er rekinn óhæfur og hrokafullur forstöðumaður Vátryggingaeftirlitsins, sem oft hefur komið fram sem umboðsmaður tryggingafélaganna gegn almenningi og fulltrúum hans á Alþingi. Í staðinn er þingið að framlengja störf nefndar, sem á að afla upplýsinganna.

Flugmálastjóri er eins og smalahundur í forstofu samgönguráðherra og fer eftir öllu ruglinu úr honum. Þar á meðal var á hans vegum sett upplýsingabann á sjálft Flugráð vegna réttlátrar skoðunar eins ráðsmanns á ólöglegri mismunun í eldsneytisgjaldi flugfélaga.

Stjórnsýsla landsins er morandi í embættismönnum, sem telja sig hafa eignarhald á ríkisvaldinu og vilja skammta eftir eigin geðþótta af hlunnindum þess. Þeir líta niður á fólkið í landinu og fulltrúa þess á Alþingi. Þetta stafar af ofurvaldi íslenzkrar stjórnsýslu.

Hér á landi var aldrei gerð borgaraleg bylting eins og á meginlandi Evrópu né stofnað nýtt borgararíki eins og í Bandaríkjunum. Hér ruddu borgararnir aldrei forréttindastéttunum úr vegi. Við höfum því miður aldrei farið gegnum hreinsunareldinn, sem hófst árið 1789.

Frelsisbarátta Íslands var fyrst og fremst barátta innlendra embættismanna gegn erlendum embættismönnum. Við súpum seyðið af því núna, þegar umboðsmaður okkar fórnar höndum og er uppiskroppa með leiðir til að lækka rostann í óhæfum embættismönnum.

Það væri séríslenzkur flötur á umboðsmannakerfinu, ef við þyrftum að koma á fót embætti yfirumboðsmanns til að hlusta á klögumál allra hinna umbanna.

Jónas Kristjánsson

DV