Umbinn í ruslafötunni

Greinar

Framkvæmdavaldið í landinu telur sig vita betur en umboðsmaður alþingis um, hvort það hafi farið út fyrir lög í stjórnsýslunni. Í flestum tilvikum ákveða ráð herrar og ráðuneytisstjórar að taka ekki mark á niðurstöðum umboðsmannsins og svara ekki bréfum hans.

Að þessu leyti er íslenzkt framkvæmdavald öðruvísi en framkvæmdavald á Norðurlöndum, þaðan sem upprunnið er embætti umboðsmanns alþingis. Komið hefur fram, að þar þykir sjálfsagt að fara eftir niðurstöðum umboðsmanns, nema knýjandi nauðsyn beri til annars.

“Það fer alveg eftir því, hvers eðlis álitið er, hvað við gerum. Það geta verið jafn margar ástæður til mismunandi viðbragða og fjöldi álita. Við skoðum þau alltaf og reynum að bregðast við eins og við á og eftir því, hvað réttast er á hverjum tíma,” sagði ráðuneytisstjóri.

Í þessum hrokafullu ummælum embættismannsins felst, að hann telur sig vita, hvað er “réttast”. Hann er æðsti dómstóll um eigin gerðir og þarf ekkert á stofnunum alþingis að halda. Þessi ummæli segja raunar allt, sem þarf að segja um ástand íslenzkrar stjórnsýslu.

Hér á landi umhverfist ungmenni við að verða að hrossaræktaráðunauti. Hann temur sér á svipstundu framkomu átjándu aldar valdsmanns, sem talar niður til pupulsins. Slíkt virðist loða við íslenzka stjórnkerfið, þótt menn hafi losnað við það í nágrannalöndunum.

Enginn hefur dregið í efa hæfni umboðsmanns alþingis eða vinnubrögð hans. Sérstaklega hefur verið tekið fram, að hann starfi á líkan hátt og starfsbræður hans á Norðurlöndum. Menn eru í stórum dráttum sammála um, að hann sé einn færasti lögfræðingur landsins.

Samt er niðurstöðum hans í bezta falli svarað á þann hátt, að ráðherra og ráðuneytisstjóri panta andstætt álit frá lögfræðistrák viðkomandi ráðuneytis og er það látið gilda. Enda litu embættismenn átjándu aldar svo á, að þeir einir hefðu alltaf rétt fyrir sér.

Verst hefur framganga valdshyggjuráðherranna fjögurra verið. Það eru fjármálaráðherra, landbúnaðarráðherra, menntaráðherra og viðskiptaráðherra. Þeir hafa svo mjög hunzað niðurstöður umboðsmannsins, að ekki verður hjá því komizt að kalla það skipulega andstöðu.

Fjármálaráðherra hefur lagt króka á leið sína til að reyna að fá dregið úr starfsemi umboðsmannsins með því að fá lækkaðar fjárveitingar til embættis hans. Í þingræðu útskýrði ráðherrann þetta með því, að of mikill tími færi í að svara bréfum umboðsmannsins.

Landbúnaðarráðuneytið hefur ekkert mark tekið á því, þótt umboðsmaður álíti búfjártalningu þess hafa verið ólöglega. Ráðuneytisstjórinn, sem hefur síðan misnotað gögn úr talningunni í óþökk bænda, segir bara, að talningin sé þegar “gerður hlutur”.

Viðskiptaráðherra hefur tekið undir þá skoðun Seðlabankans, að umboðsmaðurinn hafi rangt fyrir sér, þegar hann sagði meðferð bankans á máli Ávöxtunar hafa verið vítaverða. Ráðherrann tók sérstaklega fram, að umboðsmaðurinn væri alls enginn dómari.

Menntaráðherra hefur nú í tæpan mánuð legið á þeirri niðurstöðu umboðsmanns, að ólöglegt sé að taka efnisog bókagjöld af nemendum í skyldunámi. Ráðherrann hefur komið fram í sjónvarpi og sagzt hafa álit annarra lögfræðinga fyrir því, að gjaldheimtan sé í lagi.

Í andstöðunni við umba fer saman pólitísk ofbeldishneigð nokkurra ráðamikilla stjórnmálamanna og almennt átjándu aldar hugarfar æðstu embættismanna.

Jónas Kristjánsson

DV