Umboðsmaður Alþingis hefur staðfest, að dómsmálaráðherra fór ekki að lögum, þegar hann skipaði frænda flokksforingjans sem dómara í Hæstarétt. Hann braut ekki bara jafnréttislög, heldur líka stjórnsýslulög. Umboðsmaðurinn hefur hins vegar ekki vald til að breyta rangindum ráðherrans, sem standa.
Umboðsmaðurinn vekur athygli á, að hvergi í ferli málsins var þess getið, að sérstaklega væri þörf fyrir dómara, sem hefði skrifað eina ritgerð um Evrópurétt. Það var ekki fyrr en ráðherra fór að leita að útskýringum á því, hvers vegna hann hafnaði mörgum hæfari mönnum til að velja frændann.
Hæstiréttur þarf auðvitað ekki dómara, sem hefur skrifað eina ritgerð um Evrópurétt, heldur fjölhæfa dómara með víðtæka fræðiþekkingu og víðtæka reynslu að baki. Hægt er að kalla til dómara að utan, ef þörf er á þekkingu upp úr ritgerð, sem engin veit, að hafi búið yfir neinu markverðu.
Umboðsmaðurinn beinir því til Alþingis að framvegis verði þar búið svo um lagahnúta, að ósvífnir flokksjaxlar á borð við núverandi dómsmálaráðherra geti ekki níðst á Hæstarétti og eytt trausti manna á honum með fáránlegum skipunum í krafti þess, að allt vald á Íslandi kemur frá ráðherrum.
Engu máli skiptir, hversu langar þrætubækur verða birtar í greinum ráðherrans og leiðurum Morgunblaðsins þessa daga. Ekki verður hægt að skrifa sig frá því, að umboðsmaður Alþingis telur brýnt, að Alþingi setji lög, sem komi í veg fyrir, að embættisfærsla af tagi ráðherrans endurtaki sig.
Að sjálfsögðu er þetta eindreginn áfellisdómur yfir gömlum flokksjaxli, sem ítrekað hefur sýnt, að hann tekur hagsmuni flokks og formanns fram yfir þjóðarhagsmuni. Það er engin vörn í málinu að segja, að gömul hefð sé fyrir því, að ráðherrar fari eftir geðþótta fremur en lögum og reglum.
Hæstiréttur hefur átt í erfiðleikum um margra ára skeið, af því að hann er ekki nógu vel skipaður. Það stafar einmitt af því, að forverar ráðherrans hafa ekki skipað bezta fólkið, þótt nú fyrst hafi kastað tólfunum. Hæstiréttur þarf ekki fleiri gæludýr flokka og formanna, heldur hæfasta fólkið.
Niðurlæging Hæstaréttar hefur verið slík, að hvað eftir annað hafa dómar hans orðið afturreka, þegar menn hafa kært þá til æðri dómsvalda úti í Evrópu. Niðurlæging dómstólsins er um leið niðurlæging ríkis og þjóðar. Þess vegna er brýnt, að þar leysi hæfir menn af hólmi gæludýr flokka og formanna.
Við þurfum að losna út úr hinum forna heimi einveldistímans, sem setur óþægilega mikinn svip á störf dómsmálaráðherrans. Við þurfum að stinga við fótum, þegar umbinn segir stopp.
Jónas Kristjánsson
DV