Umboð til vinstri stjórnar.

Greinar

Fyrir kosningar lögðu Steingrímur Hermannsson og aðrir forustumenn Framsóknarflokksins sérstaka áherzlu á, að flokkurinn stefndi að myndun nýrrar vinstri stjórnar eftir kosningar. Þetta voru óvenju skýlausar yfirlýsingar á þeim bæ.

Því má gera ráð fyrir, að þeir kjósendur, sem gengu til liðs við Framsóknarflokkinn í kosningunum, hafi með atkvæði sínu stutt þessar hugmyndir um nýja vinstri stjórn eða að minnsta kosti ekki lýst neinum ótta við þær.

Steingrímur Hermannsson telur líka réttilega, að í kosningasigri flokksins felist umboð til myndunar slíkrar stjórnar. Það er því vinstri stjórn og engin önnur, sem er á dagskrá stjórnmálanna á þessari jólaföstu.

Að vísu er dálítil fýla í forustumönnum flokkanna, sem töpuðu fylgi í kosningunum, Alþýðuflokksins og Alþýðubandalagsins. Þeir segjast ekki þurfa að gefa meira eftir í næstu vinstri stjórn, þótt þingstyrkur þeirra hafi minnkað.

Alþýðubandalagsmenn leggja áherzlu á, að næsta vinstri stjórn þurfi að vera meira en nafnið eitt. Hún þurfi að vera raunveruleg vinstri stjórn. Á almennu máli þýðir þetta, að áhrif Alþýðubandalagsins þurfi að vera meiri en áður.

Lúðvík Jósepsson er þó raunsærri en margur flokksbróðirinn. Hann leggur áherzlu á, að flokkarnir þrír verði að semja um málamiðlun sín á milli og að stjórnarsáttmálinn verði að vera ítarlegri en síðast.

Að sumu leyti er vinstri stjórnar vandi Alþýðuflokksins meiri. Hann sprengdi síðustu vinstri stjórn og verður því að feta sig varlega inn í næstu vinstri stjórn. Annars gæti flokkurinn orðið að athlægi fyrir upphlaupið.

Á móti þessu kemur, að efnahagshugmyndir Framsóknarflokks og Alþýðuflokks eru svipaðar. Á því sviði geta flokkarnir tveir náð saman. Mun erfiðara verður að draga Alþýðubandalagið inn í samræmda efnahagsstefnu þriggja flokka.

Þessi staðreynd hefur ýtt undir hugmyndir um minnihlutastjórn Framsóknarflokks og Alþýðuflokks, er afli sér hlutleysis til hægri eða vinstri eftir málefnum hverju sinni. Slík stjórn yrði náttúrlega samstæðari en þríflokkastjórn.

En minnihlutastjórn verður tæpast á dagskrá í alvöru, nema það komi í ljós, að flokkarnir þrír geti með engum hætti komið sér saman um ítarlega málamiðlun í stjórnarsáttmála. Og slíkt hefur ekki enn komið í ljós.

Samstarf einhvers þessara flokka við Sjálfstæðisflokkinn er ekki heldur á dagskrá. Vinstri stjórnmálamenn keppast við að lýsa því yfir, að ekki komi til greina að starfa með svo hægri sinnuðum flokki sem hann sé nú orðinn.

Morgunblaðið segir, að leiðtogar flokkanna þriggja og einkum Steingrímur Hermannsson séu haldnir vinstri stjórnar áráttu. Þetta er að vísu rétt. En það er þó ekki vani manna að væla um það opinberlega, að enginn vilji elska sig.

Við komum því alltaf aftur og aftur að vinstri stjórn. Framsóknarflokkurinn getur ýtt undir hina flokkana tvo með því að benda þeim á, að áróðurinn um heilindi flokksins og sáttasemjarahlutverk í síðustu vinstri stjórn eigi þátt í kosningasigrinum.

Það skiptir ekki máli, þótt flokkarnir tveir telji þetta rangan áróður. Hitt skiptir máli, að kosningar unnust á slíkum áróðri. Í því felst ábending um, að í næstu kosningum verði gott að hafa orð á sér fyrir heilindi og sáttfýsi.

Jónas Kristjánsson

Dagblaðið