Umbúðir eyðist skjótt

Greinar

Léleg umgengni er áberandi í fari margra Íslendinga. Mest tengist hún drykkjusiðum þjóðarinnar, sem felast í að taka heilann úr sambandi með mikilli notkun áfengis á skömmum tíma. Við það hverfa um tíma ýmsar góðar venjur, sem siðmenntaðar þjóðir temja sér.

Um daginn var skýrt frá, að ráðizt hefði verið á líkneski af Maríu guðsmóður í garði Kristskirkju. Þessa dagana er verið að segja frá þungum áhyggjum eigenda sumarhúsa af skemmdarverkum á fyrirhugaðri Húsafellshátíð. Og alkunn er meðferðin á almenningssímum.

Undir annarlegum áhrifum grýta menn frá sér, hvar sem er, hverju sem er, einkum umbúðum. Þetta gera einnig margir, sem ekki geta afsakað sig með að hafa verið ósjálfráðir gerða sinna. Þeir eru einfaldlega ekki búnir að ná áttum í umbúðaflóði nútímaþjóðfélagsins.

Töluvert hefur að undanförnu verið rætt um aukna umbúðamengun á Íslandi. Hún er brýnt viðfangsefni, en umræðan hefur að ýmsu leyti verið reist á röngum forsendum. Margnota umbúðir eru ekki eins góð lausn og margir halda og brennanlegar umbúðir ekki heldur.

Umbúðir ropvatns stinga mest í augun. Einna illskástar þeirra eru hálfs annars lítra plastflöskurnar. Þær rúma mikið magn og eru því lengi að tæmast. Ennfremur sjást þær vel og eru auðtíndar. Þær eyðast hins vegar ekki af sjálfu sér í náttúrunni.

Næstar koma málmdósirnar, sem mest hafa verið gagnrýndar. Þær er ekki hægt að brenna. Hins vegar verða þær skjótt ryðbrúnar og falla þannig að nokkru leyti inn í landslagið og eyðast síðan að lokum. Gallinn er sá, að allt of hægt ryðga þær og eyðast.

Verri eru plastdósirnar nýju, þótt þær brenni. Þeir, sem eru sóðar og taka ekki umbúðir með sér heim, munu ekki brenna dósirnar. Auk þess er slík brennsla oft vandkvæðum bundin, þótt viljann vanti ekki. Og verst er, að plastið ryðgar ekki á sama hátt og málmur.

Í rauninni eru svo verstar hinar margnota umbúðir, sem margir mæla með. Glerið má að vísu nota aftur, svona fræðilega séð. En reynslan sýnir, að það framkallar sérstaka athafnaþrá í fullum og ófullum Íslendingum, sem telja, að gosflöskum beri að varpa í nálægt grjót.

Nokkrir áhugamenn, sem nýlega hreinsuðu úr náttúrunni ropvatnsumbúðir af öllu tagi, bölvuðu glerinu mest. Hver flaska hafði brotnað í þúsund mola, sem ógerlegt var að ná upp. Vinnan við að hreinsa hverja flösku var á við hundrað dósir og þúsund plastflöskur.

Engu máli skiptir, þótt unnt sé að skila glerflöskum og fá fyrir þær peninga. Íslendingar eru svo ríkir, að þeir þykjast ekki þurfa á því fé að halda, allra sízt yngstu kynslóðirnar, sem eyðslusamastar eru. Gler er þessu fólki einnota umbúðir, hvað sem fræðin segja.

Ropvatnsmengun verður því ekki minnkuð hér á landi með því að banna einnota umbúðir, svo sem sumir virðast halda og reynt hefur verið í öðrum löndum, þar sem árátta til glerbrota er minni en hér á landi. Við erum einfaldlega ekki eins siðmenntaðir og Danir.

Ropvatnsmengun verður ekki heldur minnkuð með því að taka upp brennanlegar plastdósir í stað ryðganlegra málmdósa. Hún verður fyrst og fremst minnkuð við að taka upp nýlega uppgötvun, dósir sem eyðast á undraskömmum tíma eftir að þær hafa verið opnaðar.

Þessari japönsku nýjung þurfum við að kynnast. Hún hentar sennilega vel íslenzkum umgengnisvenjum og getur leitt til, að banna megi aðrar umbúðir ropvatns.

Jónas Kristjánsson

DV