Umbúðir um nánast ekkert

Greinar

Norrænt samstarf hefur ungað út 114 blaðsíðna skýrslu um varðveizlu leðurhúsgagna. Brezka tímaritið Economist hefur raðað saman nokkrum slíkum brosleg um dæmum um norrænt samstarf. Það birti fyrir viku grein, þar sem gert er grín að þessu samstarfi.

Blaðið hefur reiknað út, að við Norðurlandaráð og ráðherranefndir Norðurlanda sitji 23 embættismannanefndir að norrænum verkefnum, 74 norrænar stofnanir, 152 nefndir og svokallaðir starfshópar, og unnið sé að 2000 norrænum verkefnum í þessu samstarfi.

Kostnaður þessa hátimbraða kerfis norræns samstarfs nam um 7,7 milljörðum króna á síðasta ári. Tímaritið Economist telur, að lítið gagn sé að þessu fé, nema fyrir flugfélagið SAS, sem sér um að flytja embættis- og stjórnmálamennina milli horna þessa heimshluta.

Fleirum en utangarðsmönnum er ljóst, að mikið fé fer í súginn í norrænu samstarfi. Sænski fjármálaráðherrann hefur sagt, að unnt sé að verja tímanum til nytsamlegri hluta en gerð norrænna efnahagsáætlana. Sú vinna hefur nú blessunarlega verið lögð niður.

Langt er síðan norræn samvinna náði árangri, sem svaraði til fyrirhafnarinnar. Á sjötta áratug aldarinnar var aflétt vegabréfsskoðun milli Norðurlanda. Þau voru þá gerð að einum vinnumarkaði. Þá var samið um gagnkvæm réttindi í tryggingum og heilsugæzlu.

Síðan hefur lítið gerzt. Economist telur, að tollmúrar milli Norðurlanda hafi ekki farið að lækka fyrr en suðlægari ríki á borð við Austurríki og Sviss komu til samstarfs við þau og mynduðu með þeim Fríverzlunarsamtökin. Framfaramáttur fríverzlunar hafi komið að utan.

Í viðtali DV um þessa gagnrýni við hinn íslenzka ráðherra norrænna samstarfsmála, Jón Sigurðsson, bar hann í bætifláka fyrir Norðurlönd, þótt hann viðurkenndi, að norrænt samstarf væri þunglamalegt og umbúðasamt eins og fjölþjóðlegt samstarf væri yfirleitt.

Jón benti á tiltölulega óáþreifanleg atriði eins og menningarmál og umhverfismál, þar sem norrænt samstarf skilaði árangri. Hann vísaði einnig á Norræna fjárfestingarbankann. Sá banki hefur verið umdeildur hér á landi að undanförnu, en kann að hafa komið að gagni.

Ekki verður komizt hjá að viðurkenna, að norrænt samstarf felst að umtalsverðu leyti í ferðalögum og veizluhöldum embættis- og stjórnmálamanna, þótt sitthvað gagnlegt fljóti með. Íslenzki samstarfsráðherrann viðurkenndi þetta raunar í áðurnefndu viðtali við DV.

Norrænt samstarf er svo fyrirferðarmikið hér á landi, að forsetar Sameinaðs alþingis telja sig neydda til að umgangast skyldur handhafa forsetavalds af slíkri léttúð, að þeir voru allir á norrænu flandri einmitt í vikunni, sem forseti Íslands var á ferðalagi í útlöndum.

Þessa sömu viku, þegar forseti Sameinaðs alþingis óvirti skyldur sínar, var Alþingi óstarfhæft vegna aukafunda í norrænu samstarfi. Þannig leggst starfsemi þingsins hvað eftir annað niður, af því að leiðtogar þings og flokka leggjast í norræn ferðalög og veizluhöld.

Minni athygli vekur, þótt embættismenn séu á þessu flandri, því að ekki er vitað, hvort þeir mundu gera eitthvað, þótt þeir væru við skrifstofuna. En ekki dylst neinum, sem fer til útlanda, að á leiðum til Norðurlanda er “Saga Class” hálffullt af slíku liði á hverjum morgni.

Svona skrautlegar umbúðir utan um nærri ekki neitt stafa auðvitað af, að embættismenn og stjórnmálamenn vilja ekki missa af veizluhöldum og ferðalögum.

Jónas Kristjánsson

DV