Umferð við höfnina

Greinar

Hversu góðar, sem eru nýjar hugmyndir að skipulagi svæðisins við gömlu Reykjavíkurhöfn, eru þær háðar umferðarskipulagi borgarinnar. Samkvæmt reynslunni er það undantekningarlaust afleitt, hvort sem um er að kenna faglegri vangetu eða brenglaðri hugmyndafræði andúðar yfirvalda á einkabílisma.

Allt fram til ársins 2003 var því haldið fram af yfirvöldum skipulagsins, að ekki væri víst, að mót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar þyrftu að vera mislæg. Hafa má þá skoðun eina út af fyrir sig til marks um, að eitthvað meira en lítið er athugavert við mat borgarinnar á umferðarþörf.

Fleiri undarleg dæmi eru um þetta, svo sem umferðarljós á mislægum gatnamótum, sem stafa af því, að ekki var strax gert ráð fyrir, að mislægni þyrfti. Afleiðingin er, að ökumenn þurfa oft að stanza á mislægum gatnamótum með tilheyrandi seinkunum á umferð, lausagangi véla og mengun.

Ástæða er til að óttast, að borgaryfirvöld séu enn sem fyrr svo heltekin af hugmyndafræði strætisvagna, að þau telji sig geta mætt auknum umferðarþunga með því að ýta fleirum inn í strætó. Þau ímyndi sér, að unnt sé að mæta framtíð aukins mannfjölda án þess að gera ráð fyrir auknum umferðarþunga.

Þegar lýstur saman andúðinni á einkabílisma og hugmyndafræði þéttari byggðar, sem er önnur mislukkuð aðferð til að þrýsta fólki inn í strætó, verður niðurstaðan umferðaröngþveiti. Gatnakerfið á svæði byggðaþéttingar og í nágrenni hennar getur ekki staðið undir umferðinni og verður að flöskuhálsi.

Þegar svæðið við gömlu höfnina er byggt upp, þarf mislæg gatnamót eftir endilangri Sæbraut og viðstöðulausa tengingu milli Sæbrautar og Hringbrautar, sennilega um jarðgöng undir Skólavörðuholt. Menn þurfa líka að gera ráð fyrir stórfelldum mótum Sæbrautar og fyrirhugaðrar Sundabrautar.

Sagan sýnir, að ástæða er til að óttast, að borgaryfirvöld ímyndi sér, að umferðarþunginn muni aukast minna en eðlilegt er að gera ráð fyrir, af því að þau telji sig munu loksins finna lausn á ögrun einkabílismans. Þannig fer fyrir fólki, sem gerir ekki greinarmun á hugmyndafræði og veruleika.

Við höfum séð hugmyndir borgarskipulagsins um mannvirki í Vatnsmýri án þess að þar sé gert ráð fyrir tilsvarandi víkkun gamla gatnakerfisins. Við höfum séð hugmyndir þess um mannvirki á uppfyllingu úti í Eiðisvík án þess að þar sé gert ráð fyrir tilsvarandi víkkun gamla gatnakerfisins.

Ef ekki verður haft vit fyrir borgaryfirvöldum í tæka tíð, munu þau framleiða öngþveiti á öllum leiðum, sem liggja að hinu fyrirhugaða hverfi við gömlu höfnina í Reykjavík.

Jónas Kristjánsson

DV