Umferðarhornið

Greinar

Reykjavíkurlistinn hefur átt ótrúlega erfitt með að ná áttum í skipulagsmálum. Í dagblöðunum birtist nokkrum sinnum í viku gagnrýni á skipulagið, einkum færslu Hringbrautar suður fyrir Umferðarmiðstöð. Minna er talað um skilningsleysi Reykjavíkurlistans á mesta umferðarhorni borgarinnar.

Gatnamót Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar er mesta umferðarhorn landsins. Byggðar eru umferðarbrýr út um allar trissur á Reykjavíkursvæðinu og ráðgerð milljarðaútgjöld í braut út um sund, nes og eyjar, en Reykjavíkurlistinn þvælist gegn mislægum gatnamótum á mesta umferðarhorninu.

Þessi gatnamót hafa lengi verið mesta slysahorn borgarinnar, en Reykjavíkurlistinn þverskallast enn við að láta gera þar mislæg gatnamót. Hver lumman og lygin hefur verið dregin upp eftir aðra til að útskýra, hvers vegna framkvæmdir á þessum stað komast ekki á eðlilegan stað í forgangsröð framkvæmda.

Stundum er sagt, að undirbúningur málsins sé í “eðlilegum farvegi”, sem þýðir á máli Reykjavíkurlistans, að hann er í salti. Stundum er sagt, að fleiri akreinar dugi til að laga gatnamótin og stundum er sagt, að mislæg gatnamót valdi sérstakri mengun á þessum stað eða flytji vandann annað.

Mest af þessu er bull. Sérstaklega er ámælisvert að halda því fram, að mengun aukist við, að ekki þarf að stanza bíla og taka þá af stað að nýju. Þvert á móti minnkar mengun við að bílar geta farið viðstöðulaust í stað þess að stanza á fjölfarnasta umferðarhorni borgarinnar og landsins alls.

Hitt er rétt, að flýting umferðar á þessu horni veldur þrýstingi á önnur umferðarhorn, svo sem við Lönguhlíð. Raunar er óvenjulegt, að Reykjavíkurlistinn átti sig á þessu, því að um tíma var að hann að gamna sér við byggð úti í Eiðisvík, þótt hún mundi auka álag á þrönga Hringbraut.

Bezt er að klippa á tengsl Lönguhlíðar og Miklubrautar og tryggja þannig viðstöðulausan akstur eftir allri Miklubraut eins og hún leggur sig. Miklatorg er að verða mislægt. Aukin bílageymsluhús við Tjörnina geta tekið við hraðari straumi bíla frá Kringlumýrarbraut og Miklubraut um Miklatorg.

Hrokinn er megineinkenni Reykjavíkurlistans í þessu máli sem öðrum skipulagsverkefnum. Oddamenn hans geta ekki tekið gagnrýni og rökrætt hana og enn síður geta þeir gefið eftir. Þessi viðbrögð eru dæmi um, að listinn hefur verið of lengi við völd í borginni og þarf að fara að fá hvíld frá völdum.

Verst er, að samsæri Reykjavíkurlistans gegn mislægum gatnamótum Miklubrautar og Kringlubrautar veldur óþarfri mengun og óþörfum slysum á mesta umferðahorni landsins.

Jónas Kristjánsson

DV