Matthías Á. Mathiesen viðskiptaráðherra hefur falið bankaráðum ríkisbankanna að endurskoða bílafríðindi og eftirlaun bankastjóra. Einnig hefur hann beðið ráðin um að fá að vita um allar fyrirhugaðar breytingar á starfskjörum bankastjóra og raunar annarra bankastarfsmanna.
Mál þetta er gott dæmi um, að opinber umfjöllun getur leitt til umbóta. Það er ekki lengra síðan en í apríl, að mikill hvellur varð í dagblöðum og á Alþingi út af bankastjórakjörum, sem haldið hafði verið leyndum. Þótti mörgum sem ýmislegt væri vafasamt í þeim kjörum.
Uppljóstrun þessi leiddi til, að Albert Guðmundsson afturkallaði bílafríðindi ráðherra. Þau fríðindi fólust í niðurfellingu aðflutningsgjalda. Bankastjórafríðindin voru hins vegar þau, að þeir fengu jafnháa upphæð til að styrkja sig til kaupa á bílum.
Hin nýja reglugerð fól í sér afturhvarf til þess fyrirkomulags, er gilti fyrir 1970, að ríkið og bankarnir áttu bílana og veittu ráðherrum og bankastjórum afnot af þeim. Eftir á að hyggja sýnist þetta vera eðlilegri og einfaldari aðferð við fríðindi af þessu tagi.
Um þetta leyti fól viðskiptaráðherra Baldri Möller, fyrrum ráðuneytisstjóra, að gera skýrslu um starfskjör bankastjóra. Sú skýrsla var lögð fram í síðasta mánuði og hefur nú leitt til aðgerða ráðherrans. Sýnist mál þetta hafa verið og vera í réttum farvegi.
Skýrsla Baldurs staðfestir fyrri uppljóstranir um, að bankastjórar hafa ekki greitt nein iðgjöld til lífeyrissjóða, en fá samt eftirlaun og það með ævintýralega skjótum hætti. Þeir safna á 12-15 árum rétti til eftirlauna, sem nema 90% af launum þeirra í starfi.
Bankaráð og bankastjórar hafa í þessu vafalaust haft í huga eftirlaun ráðherra. Sá samanburður er hins vegar ekki eðlilegur, því að ráðherrar eiga alltaf á hættu að missa starf sitt og gera það óspart. Algengt er, að menn séu ráðherrar í aðeins nokkur ár, til dæmis eitt kjörtímabil.
Bankastjórar eiga hins vegar ekki á hættu, að pólitískir vindar feyki þeim úr sessi. Þeir geta vænzt þess að fá að sitja starfsævina á enda. Þeir þurfa ekki að safna eftirlaunarétti eins hratt og ráðherrar. Enda verður þetta nú væntanlega endurskoðað.
Í skýrslu Baldurs kemur fram, að laun bankastjóra hafa löngum verið miðuð við hæstaréttardómara og fríðindi þeirra við ráðherra. Erfitt er að sjá, að þessi hefð eigi sér stoð í óhlutdrægu mati á þessum störfum og mikilvægi þeirra í þjóðfélaginu.
Ráðherrar og hæstaréttardómarar fara með æðsta framkvæmdavald og dómsvald í landinu, tvo þriðju hins æðsta valds. Bankastjórarnir eru hins vegar forstjórar fyrirtækja, sem hér á landi eru í eigu ríkisins, en væru hrein einkafyrirtæki í nágrannaríkjum okkar.
Hitt er svo líka rétt, að bankastjórar sinna afar mikilvægu starfi í þjóðfélaginu. Nauðsynlegt er að fá til þess hina hæfustu menn og launa þá svo vel, að þeir séu vel stæðir og þurfi ekki að vera upp á viðskiptamenn komnir, – þurfi til dæmis ekki að láta bjóða sér í laxveiði.
Í máli þessu skiptir mestu, að stjórnvöld hafa brugðizt rétt við hvellinum, sem varð í vor. Þau hafa látið brjóta málið til mergjar og lagt grundvöll að auknu aðhaldi í náinni framtíð. Betur væri, að þannig væri haldið á málum í kjölfar annarra uppljóstrana.
Jónas Kristjánsson.
DV