Umhverfis-umhyggja

Greinar

Stofnun sérstaks umhverfisráðuneytis er ein allra merkasta nýjungin í stjórnsýslu síðustu ára. Hún er merki um, að við hyggjumst taka verndun umhverfisins föstum tökum eftir langvinnt sinnuleysi. Vænta má, að breytingin stuðli að góðu og betra Íslandi.

Við þurfum að vinna vel að umhverfismálum, bæði með starfi heima fyrir og með þátttöku í fjölþjóðastarfi á víðara sviði. Út á við ber okkur að hvetja til eflingar umhverfisáætlunar Sameinuðu þjóðanna eða jafnvel til myndunar sérstakrar stofnunar til umhverfisforustu.

Við verðum eins og aðrar auðþjóðir að taka þátt í kostnaði við verndun regnskóga, sem sjá jörðinni fyrir jafnvægi milli súrefnis og koltvísýrings. Við verðum einnig að taka þátt í kostnaði við stöðvun á notkun úðaefna, sem eyða ózonlagi himinhvolfsins.

Okkur ber að taka af alefli þátt í vörnum gegn áhrifum mannvistar á hitastig á jörðinni. Það kemur okkur meira við en mörgum öðrum, af því að breytingar á hita í hafinu geta flutt fiskistofna langar leiðir og raunar hliðrað til ferli strauma á borð við Golfstrauminn.

Þá er okkur brýnt að stuðla að alþjóðlegu eða fjölþjóðlegu samstarfi um að stöðva notkun úthafsins sem ruslakistu fyrir hættuleg úrgangsefni. Við verðum að koma í veg fyrir, að mengun hafsins hafi skaðleg áhrif á fiskveiðar okkar, hornstein mannlífs á Íslandi.

Hér heima fyrir er ótal verk að vinna. Við þurfum að gera annað og meira en að reisa dælustöðvar til að koma skolpi út í sjó og reisa böggunar- og urðunarstöðvar til að koma sorpi niður í jörð. Við erum því miður að fást við úreltar lausnir á þessum sviðum mengunar.

Í staðinn ber okkur að reisa hreinsistöðvar til að hreinsa skolpið, áður en það fer til sjávar. Ennfremur er okkur skylt að koma á flokkun á sorpi, svo að endurvinna megi alla nytsamlega þætti þess, í stað þess að urða það holt og bolt, eins og fyrirhugað er núna.

Verndun fiskistofna er ein veigamesta umhverfisverndunin. Við höfum þegar náð töluverðum árangri á því sviði, enda skilja flestir hagsmunaaðilar, að bezt er að fara að ráðum fræðinga og veiða minna en við vildum veiða, svo að við eigum framtíð í fiskveiðum.

Sem betur fer hugsa fáir eins og forsætisráðherrann, sem segist gera greinarmun á þörfum fiskistofna og þörfum þjóðar. Hann var að halda fram þeirri skoðun, sem felur dauðann í sér, að veiða megi of mikið núna til að létta rekstur þjóðarbúsins á líðandi stund.

Annað mikilvægasta umhverfismálið er að koma landinu í ástandið, sem það var í við landnám þjóðarinnar. Það kostar stórfé og verður þar að auki ekki gert nema með algerri uppstokkun á skipulagi Landgræðslu ríkisins, sem lítur núna á sig sem beitilandsstofnun.

Landgræðslan veldur ekki hlutverkinu, sem henni er ætlað, því að hún er undir húsaga hjá landbúnaðinum. Þess vegna lætur hún rollukónga vaða uppi, eins og í Mývatnssveit, sem illræmt er orðið. Brýnt er, að nýtt ráðuneyti leiðrétti kompásskekkju Landgræðslunnar.

Fyrirhugað átak í skógrækt á Fljótsdalshéraði og víðar er einnig viðamikið umhverfismál. En mikilvægt er, að sú hugsjón verði ekki misnotuð til að búa til enn eitt spillingarkerfi hins opinbera, þar sem kvígildum er raðað á ríkisjötuna undir yfirskini fagurrar iðju.

Þessi dæmi sýna, að mörg og brýn verkefni bíða eftir nýja umhverfisráðuneytinu, sem á að vera í fararbroddi varnar og sóknar í umhyggju okkar fyrir umhverfinu.

Jónas Kristjánsson

DV