Umhverfisóbeit

Greinar

Seltjarnarnesbær lét nýlega ýta jarðvegi yfir setlög og steingervinga frá síðjökultíma við Svartabakka. Þessi setlög voru á náttúruminjaskrá. Yfirmönnum Seltjarnarnesbæjar var kunnugt um tilvist þessarar náttúruminjaskrár, en hafa ekki áhuga á að fara eftir henni.

Fyrr í sumar lét Seltjarnarnesbær ýta jarðvegi yfir skógræktarreit Kvenfélags Seltjarnarness vestan við íþróttavöllinn. Að baki beggja þessara aðgerða liggur athafnaþrá, sem lætur ekki beizla sig af mannasiðum og hefðum í umgengni við gróður og náttúru landsins.

Seltjarnarnesbær hefur árum saman unnið að hnignun Valhúsahæðar sem útivistarsvæðis. Þar skiptust áður á jökulsorfnar klappir og náttúrulegur gróður, sem börn og fullorðnir notfærðu sér. Nú er búið að raska meirihluta hæðarinnar og draga úr mannaferðum.

Árásin á hæðina er þríþætt. Gerður hefur verið íþróttavöllur, sem enginn notar. Byggð hafa verið einbýlishús, sem enginn vill kaupa. Og gerðar hafa verið tvær risagryfjur fyrir áramótabrennur, sem notaðar verða í mesta lagi einu sinni á ári, ef báðar nýtast.

Ekki eru allir sammála um, hvort fjórða atriðið eigi heima í þessum flokki árása Seltjarnarnesbæjar á náttúru hæðarinnar. Það er kirkjan, sem ekki var byggð á góðu svæði í suðurhlíðum hæðarinnar, heldur nálægt toppi hennar, þar sem hún rýfur útsýnishringinn.

Nú er svo komið, að eini hluti hæðarinnar, sem börn og fullorðnir kæra sig um að nota, er norðvesturhornið, sem hrammur bæjaryfirvalda hefur ekki enn náð til. Þetta er löng sorgarsaga, sem byggist á óbeit bæjaryfirvalda á náttúru, sem þau virðast telja vinstri sinnaða.

Allt eru þetta þó smámunir í samanburði við langræknar ráðagerðir bæjarstjóra Seltjarnarness um að byggja frekar en orðið er á svæðinu umhverfis Nesstofu og leggja þar stóra bílahraðbraut gegnum Bakkatjörn og út undir Seltjörn og Snoppu í nágrenni Gróttu.

Á þessum slóðum var til skamms tíma fjölbreytt fuglalíf, sem hefur verið á undanhaldi, einkum eftir að kríunni fækkaði svo, að náttúruleg löggæzla hennar hvarf að mestu úr sögunni. Þarna hafa verið æðarfugl, maríuerla, þúfutittlingur, tjaldur og músarindill.

Áhugafólk hefur reynt að hlúa að tilvist þessara fugla og náttúrunnar, sem þeir þurfa. Einkum hefur verið reynt að verja varp æðarfugls í Gróttu, sem hefur verið friðuð. Þetta hefur verið erfitt, en samt hefur tekizt að vernda leifar þessarar skemmtilegu fuglabyggðar.

Endur fyrir löngu var gert aðalskipulag fyrir höfuðborgarsvæðið, áður en hugtakið náttúruvernd varð til. Illu heilli var þar gert ráð fyrir hraðbraut kringum nesið og aukinni byggð umhverfis Nesstofu. Þetta skipulag hefa bæjaryfirvöld Seltjarnarness verndað.

Ef bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi fá að ráða ferðinni, verður nesið allt steypt og malbikað frá fjalli til fjöru. Það verður eyðilagt eins og Kársnesið í Kópavogi. Íbúar á Seltjarnarnesi skilja þetta fremur illa og endurkjósa jafnan berserki malbiks og steinsteypu til bæjarforráða.

Brýnt er, að fólk, sem skilur þessi mál betur en bæjaryfirvöld og kjósendur á Seltjarnarnesi, taki ströndina við Seltjörn og Bakkatjörn í fóstur, svo og leifar Valhúsahæðar, og taki saman höndum um að hamla gegn frekari yfirgangi náttúru- og umhverfisandstæðinga.

Ef malbiks- og steinsteypuliðið verður stöðvað við Nesstofu, má hafa það til marks um vatnaskil á leið þjóðarinnar frá braggabúskap til heimsmennsku.

Jónas Kristjánsson

DV