Umhyggjusamir hörmangarar.

Greinar

Framleiðsluráð landbúnaðarins hefur bannað sölu á jógúrt frá Húsavík í verzlunum í Reykjavík, af því að lög byggðastefnuþingmanna um framleiðsluráð ákveða, að einn aðili skuli hafa einkarétt á heildsölu landbúnaðarafurða á hverju markaðssvæði.

Jógúrtin frá Mjólkursamsölunni, hörmangara Reykvíkinga, hefur verið óhæfilega dýr, meðal annars vegna dýrra umbúða. Þessar dýru umbúðir hafa átt það til að bresta í innkaupapokum, svo að jógúrtin hefur runnið út um aðrar vörur.

Þetta komst Mjólkursamsalan upp með vegna einkaréttarins á Reykjavíkursvæðinu. Þessi einkaréttur er angi af rotnu og spilltu kerfi, sem miðar að því, að opinberir styrkþegar fái að framleiða það, sem þeim þóknast, af óhæfilega dýrri vöru.

Um tíma keypti Hagkaup aðra jógúrt út úr búð á Húsavik og flutti suður á eigin kostnað. Um tíma gátu neytendur því fengið í verzluninni jógúrt, sem bæði var mun ódýrari og einnig í mun öruggari umbúðum, sem ollu ekki tjóni.

Nú hefur þetta verið formlega bannað. Framvegis getur Mjólkursamsalan því selt óhæfilega dýra jógúrt í óhæfilega dýrum og forkastanlega lélegum umbúðum, undir verndarvæng framleiðsluráðs og byggðastefnuþingmanna allra flokka.

Framleiðsluráð landbúnaðarins er um leið að reyna að færa út kvíarnar á öðrum sviðum. Jafnframt heldur það uppi áróðursherferð um, að allar þess gerðir séu í rauninni í þágu neytenda og til þess fallnar að lækka verð á landbúnaðarafurðum.

Þetta minnir á árið 1602, þegar Danakonungur kom á fót einokunarverzlun á Íslandi af einstæðri umhyggju fyrir Íslendingum, svo að þeir fengju “óspilltan varning á sanngjörnu og kristilegu verði”. En nú er árið 1983.

Framleiðsluráð landbúnaðarins vinnur skipulega að stofnun einokunarverzlunar á eggjum. Þetta gerir ráðið til að hindra nokkra stóra framleiðendur í að halda niðri verði fyrir hokrurunum, neytendum í landinu til mikils sparnaðar.

Þegar einokunin er komin á legg, geta hokrararnir framleitt eins og þeim þóknast af eggjum á hinu háa verð- lagi kerfisins. Síðan mun ríkið neyðast til að greiða niður eggin á kostnað skattgreiðenda til að koma vörunni í lóg.

Framleiðsluráð landbúnaðarins ætlar ekki að láta sitja við eggin ein. Nýlega var fellt með aðeins eins atkvæðis meirihluta á fundi svínabænda að biðja um að fá að falla í faðm ráðsins eins og eggjabændur höfðu þegar gert.

Um svínabændur gildir hið sama og um eggjabændur, að hokrararnir eru margir, en stórframleiðendurnir fáir. Því má búast við, að fyrr eða síðar verði sjónarmið framleiðsluráðs einnig þar ofan á, svo að skattgreiðendur fái einnig þá framleiðslu á bakið.

Krumla einokunarinnar er á kafi í fleiri þáttum. Einkaréttur Grænmetisverzlunar landbúnaðarins á kartöflum hefur nú gengið svo langt, að á almennum markaði er ekki lengur til nema smælki, því að stóru kartöflurnar fara allar í verksmiðjurnar.

Þetta sama gæludýr framleiðsluráðs og byggðastefnuþingmanna ræður því einnig, hvaða tegundir grænmetis Íslendingar mega kaupa og af hvaða gæðum. Hinir kristilega umhyggjusömu hörmangarar spyrja neytendur aldrei neins.

Svo er það verðugt umhugsunarefni fyrir neytendur og skattgreiðendur, að enginn stóru stjórnmálaflokkanna hefur minnsta áhuga á að rjúfa þessa sautjándu aldar einokun, sem kostar þjóðina nokkrar Kröfluvirkjanir á ári hverju.

Jónas Kristjánsson.

DV