Undanhald dagblaða

Fjölmiðlun

Fyrsta áratug aldarinnar minnkuðu auglýsingatekjur dagblaða um helming í Bandaríkjunum. Á sama tíma fækkaði þar störfum á ritstjórn um þriðjung. Við höfum ekki tölur frá Íslandi, en þróunin er söm. Færri vinna verkin og þess vegna magnast kröfur um hraða á ritstjórn. Leiðir til slakari vinnubragða. Stafsetningu og stíl hrakar. Rannsóknir og sannreynsla slúðurs dofna. Samt eru dagblöð enn þungamiðja fréttaöflunar í heiminum. Langt framar ljósvaka, sé litið bara á magnið. Veffréttir áhugafólks koma að nokkru í stað frétta dagblaða. Oft minna vandaðar en fréttir atvinnumanna, sem kunna til verka.