Undanþágur – í bili.

Greinar

“Grænmetisverzlunin veitir mjög góða þjónustu,” sagði Ingi Tryggvason, formaður Stéttarsambands bænda og Grænmetisverzlunar landbúnaðarins, á fundi með blaðamönnum fyrir helgina út af skemmdu kartöflunum frá Finnlandi. Og hann flissaði ekki einu sinni á meðan.

Ummæli formannsins skýra betur en flest annað, hvernig komið er fyrir einokunarkerfi landhúnaðarins. Ráðamenn þess halda fram, að þeir gæti í hvívetna hagsmuna neytenda. Þeir telja enga ástæðu til að láta í frjálsum innflutningi reyna á, hvort svo sé.

“Við höfum engan áhuga á, að öðrum verði gefið leyfi til að flytja inn kartöflur,” sagði formaðurinn. Hann þykist vita, hvað sé neytendum fyrir beztu. Hann vill ekki viðurkenna, að bezt sé, að neytendur ákveði sjálfir, hvað þeim sé fyrir beztu. Hann segist bara vilja vel.

Ummælin, sem hér hefur verið vitnað í, endurspegla alla aðra röksemdafærslu til varnar hinu úrelta einokunarkerfi í sölu landbúnaðarafurða. Kerfisstjórarnir munu einbeita sér að því að koma í veg fyrir, að framhald verði á þeim undanþágum, sem nú verða veittar.

Hörð viðbrögð neytenda valda því, að Steingrími Hermannssyni forsætisráðherra finnst ekki stætt á öðru en að veita einkaframtakinu undanþágur til innflutnings á nýjum, ætum kartöflum, sem víða fást á hagstæðu verði. Þetta er stórt skarð í varnarmúrinn.

Neytendur mega hins vegar ekki ímynda sér, að þeir geti látið við undirskriftasöfnunina sitja. Ef þeir sofna á verðinum, mun einokunin taka við á nýjan leik, þegar kerfisstjórar hennar telja, að mesta hættan sé liðin. Og þá fer allt í gamla farið aftur.

Það er engan veginn einsdæmi, að Grænmetisverzlun landbúnaðarins veki hneykslun. Slíkt er að minnsta kosti árviss viðburður og ekki bara í kartöflunum, þótt þar sé ástandið verst. Grænmetiseinokunin í heild er í hróplegu ósamræmi við frelsi í innflutningi góðra ávaxta.

Grænmetisverzlun landbúnaðarins hefur hvað eftir annað lent í vondum málum. En hún hefur alltaf haft meira úthald en neytendur. Og sigur neytenda í nýjustu orrustunni mun ekki sjálfkrafa leiða til sigurs þeirra í stríðinu. Til þess þarf meira en undirskriftir.

Ef neytendur gætu hins vegar mannað sig upp í að sniðganga kartöflur Grænmetisverzlunar landbúnaðarins í varanlegan tíma, að minnsta kosti í eitt ár, er líklegt, að þeir gætu knúið stjórnendur einokunarkerfisins til uppgjafar. Neytendur mundu þá fá kartöflubændur til að endurmeta stöðuna.

Hið sama gætu neytendur raunar gert til að hrella einokunarkerfið á öðrum sviðum. Segja má, að núverandi ófremdarástand sé sumpart neytendum sjálfum að kenna. Þeir hafa þolað kúgunina, muldrandi í barm sér, en hafa ekki haft reisn eða mátt til að svara á sannfærandi hátt.

Varnarstríð einokunarinnar sjáum við í málgagni hennar, Nýja Tímanum. Þar var fyrst þagað þunnu hljóði. Síðan var skrifuð frétt um skemmd epli til að koma því inn hjá fólki, að slík vandamál fylgdu fremur hinum frjálsa innflutningi en einokunarkerfinu.

Neytendur harma að vonum 1,5 milljón króna tjón sitt af skemmdum kartöflum frá Finnlandi. En hvað mega skattgreiðendur segja um 7 milljón króna tjónið af hinni hliðinni, útflutningsuppbótunum af kjötinu til Finnlands? Og allur þessi herkostnaður er til þess eins greiddur, að SÍS fái skitnar 0,7 milljón krónur í umboðslaun.

Jónas Kristjánsson.

DV