Stínóla og Ponýta,
Cosima og Amica
Jónas Kristjánsson:
Árgangur 2004 í WorldFeng hefur venjulegan skammt af undarlegum hrossanöfnum, sem sýna kæruleysi eða aulafyndni í nafngiftum, svo sem Gasalegur-Hellingur frá Hofsósi. Sum þeirra kunna að eiga sér skýringar, en eigi að síður skera þau í augu í hinum mikla og breiða flokki hrossa, sem eru eðlilega nefnd samkvæmt hefðum.
Athyglisvert er, að undarlegum nöfnum fjölgar lítillega á Íslandi meðan þeim fækkar erlendis með betri kunnáttu útlendinga á íslenzkum hestanöfnum og öflugri stafagerðar í tölvum, sem gerir útlendingum kleift að stafsetja rétt nöfn með séríslenzkum bókstöfum. Þannig hefur Odin vikið fyrir Óðni víðast hvar í útlöndum
Indjánanöfnum skýtur af og til upp á yfirborðið á Íslandi. Þau hafa lengi gert það, en ekki náð fótfestu. Svarta-Systir frá Stóra-Vatnsskarði er eina dæmið um það í árganginum 2004. Hún er undantekningin, sem sannar regluna um, að markaðurinn hefur hafnað þessari nýjung í nafngiftum.
Ákveðinn greinir, sem áður þekktist ekki, hefur skotið upp kollinum á allra síðustu árum. Hesturinn frá Nýjabæ og Hallarfrúin frá Ytra-Vallholti eru dæmi ársins 2004. Ennfremur er um eitt dæmi á ári um föðurnefningu hrossa og er Helga-Jarlsdóttir frá Skíðbakka dæmi ársins 2004.
Einnig er farið að bera á tilbúnum nöfnum, sem eiga sér ekki sagnfræðilega stoð, svo sem Bekan frá Kolsholti, Vár (karlkyn) frá Vestra-Fíflholti, Vár (kvenkyn) frá Vestur-Leirárgörðum. Útlend nöfn, sem ekki falla undir alþjóðlega goðafræði, leka inn af og til, svo sem Parker frá Sólheimum og Lady frá Neðra-Seli.
Gæluyrði hafa alltaf verið nokkur á hverju ári. Nú voru það Gúndi frá Krossi og Sossa frá Hæringsstöðum. Sjaldan er kennt við eiganda eða föður, núna voru það Skúlína frá Eyrarbakka og Galsína frá Hofi. Slík nöfn hafa oft skotið upp kollinum, en aldrei verið fordæmi.
Svo virðast alltaf nokkur nöfn á ári hverju vera út í loftið, svo sem Stínóla frá Áslandi og Ponýta frá Skarði, svo og Fröken-Sara frá Hvítárvöllum tilraun til að vera sérvitur eða fyndinn.
Ekkert af þessum nöfnum eru dæmi um þróun í nafngiftum hrossa. Þetta eru stök tilvik, sem flest bera merki kæruleysis og hafa ekki dregið dilk á eftir sér. Samtals eru þetta um 1% af sýndum hrossum árið 2004 og skipta engu í heildarmyndinni.
Þjóðverjar voru fyrr á árum margir hverjir slæmir í nafngiftum, en hafa batnað mikið á síðustu árum. Sum lönd eru næstum laus við undarlegar nafngiftir, svo sem Bandaríkin, Austurríki, Bretland, Finnland, Holland, Svíþjóð og Sviss. Flest dæmin hér að neðan koma frá Þýzkalandi, Danmörku og Noregi.
Flest gölluðu hrossanöfnin eru heimatilbúnar útgáfur af íslenzkum nöfnum, svo sem árið 2004 Eric (Eiríkur) frá Erichshof, Gaudi (Gauti) frá Sommerberg, Gilfi (Gylfi) frá Stegberg, Thór (Þór) frá Højtbjerg, Kolbein (Kolbeinn) frá St. Restrup, Odin (Óðinn) frá Årsvoll, Brennu (Brenna) frá Gl. Essendrup, Freia (Freyja) frá Laven, Freja (Freyja) frá Kastaniely, Freja (Freyja) frá Fjalla-Vegur, Spidling (Spilling) frá Sviland.
Í öðru lagi virðast sum frá útlöndum séð vera íslenzk, en hafa enga meiningu, svo sem árið 2004 Túmi frá Stefanihof, Daghermur frá Roetgen, Nör frá Bucherbach, Kormur frá Akureyri, Fjör (karlkyn) frá Löfkulla, Bjarg (karlkyn) frá Gyðjulind, Flýfil frá Skarholt, Runi frá Bråtorpsgård, Þorleiftur frá Skogsstjärnan, Heira frá Osterkamp, Fengeraða heimilislaus, Gessa frá Wiesenhof, Ýlfa frá Katulabo.
Í þriðja lagi eru tvínefni, sem eru sjaldgæf erlendis eins og Íslandi. Dæmin frá 2004 eru Ágústa-Sól frá Oren, Stúlku-Hvöt frá Þokuheimum og Prins-Sælingur heimilislaus.
Loks eru í fjórða lagi nöfn úr öðrum áttum, sem ekki koma Íslandi við, svo sem Simba frá Steinadlerhof, Godewind frá Westensee, Sondre frá Brampton, Harry frá Stugudal, Torden frá Gjelsten, Josi frá Tiergarten, Cosima frá Ascheloh og Amica frá Steinadlerhof. Þetta eru sýnishornin frá 2004.
Á heildina litið virðist vera mjög lítill hluti hrossa á kynbótasýningum, sem bera nöfn, er annað hvort stríða gegn hefðinni eða eru á gráu svæði. Allur þorri ættbókarhrossa erlendis sem innanlands fylgja þeirri hefð að nota íslenzk nöfn.
Enginn vandi er núna að velja íslenzk nöfn. Fullt er af ónotuðum hrossanöfnum í bókunum Hrímfaxa, þar sem eru 2000 nöfn, og Hrossanöfnum, þar sem eru 7000 nöfn. Í gagnabankanum hestur.is eru líka 7000 hrossanöfn. Í öllum þessum heimildum eru íslenzk hrossanöfn útskýrð á ensku, svo að menn eiga að vita, að hvaða meiningum þeir ganga í hrossanöfnum.
Jónas Kristjánsson
Eiðfaxi 10.tbl. 2004