Alþingi er komið fram yfir fjárlög í útgjöldum fyrsta mánaðar ársins, af því að fundir þess hafa verið fleiri og lengri en gert var ráð fyrir. Töluverð næturvinna starfsliðs og nokkurt pappírsflóð fylgir næturfundum á borð við þá, sem hafa verið tíðir að undanförnu.
Ef sérkennileg hugmynd fjármálaráðuneytisins um brottfall launagreiðslna við slíkan framúrakstur hefði náð fram að ganga, væru alþingsmenn væntanlega fyrstu fórndardýrin. En óneitanlega hefði verið gaman að sjá hugmyndina framkvæmda á launum þingmanna.
Sumt gerist skondið við þessa miklu fundi Alþingis. Þar þegir heilbrigðisráðherra þunnu hljóði vikum og raunar mánuðum saman, en stekkur svo í miðri atkvæðagreiðslu upp í ræðustól til að veitast á ómaklegan og ósmekklegan hátt að forvera sínum í embætti.
Ráðamenn Alþingis ættu að velta fyrir sér, hvort það kunni ekki að skaðast af tíðum sjónvarpssendingum frá undarlegum atburðum á Alþingi. Stundum styðja þessar myndir þá skoðun sumra úti í bæ, að Alþingi sé eins og tossabekkur eða málfundur í gagnfræðaskóla.
Undarlegir atburðir gerast víðar en á Alþingi. Eitt helzta hermangsfyrirtækið fann leið til að dreifa 900 milljónum til hluthafa sinna á sama tíma og ríkisspítalarnir voru í óða önn að skera niður 550 milljón króna útgjöld með því að leggja niður ýmsa þjónustu.
Oft hefur verið krafizt þess, að hermang verði lagt niður hér á landi og í stað þess boðin út verkefni á heiðarlegan hátt. 900 milljónirnar hljóta að ýta undir þá skoðun, að tímabært sé að hreinsa þjóðfélagið af þeim svarta bletti, sem hermangið hefur sett á það.
Sumir óvæntir atburðir nýbyrjaðs árs eru ekki eins sorglegir og þessi. Það hefur til dæmis gerzt sennilega í fyrsta skipti, að hagsmunaaðilar, sem telja að sér vegið í sparnaðaráformum stjórnvalda, virðast átta sig á, hvers vegna þeir lenda undir niðurskurðarhnífnum.
Rektor Háskóla Íslands og að minnsta kosti einn skólastjóri hafa kvartað um, að stjórnvöld séu að draga úr menntun landsmanna, af því að þau þori ekki að takast á við hið raunverulega fjárhagsvandamál þjóðfélagsins, gífurlegan peningaaustur í landbúnað.
Þetta er einmitt ástæðan fyrir árás stjórnvalda á menntun eins og árás þeirra á öryrkja, gamalt fólk, sjúklinga og barnafólk. Á samdráttartíma verða smælingjarnir undir, þegar varðveitt er velferðarkerfi í atvinnulífinu. Þjóðin hefur hingað til neitað að sjá þetta.
Ummæli skólastjóranna tveggja eru óvenjuleg og gleðileg. Hins vegar mun þorri skólamanna ekki enn sjá neitt samhengi milli landbúnaðarstefnu og smábyggðastefnu stjórnvalda annars vegar og niðurskurðar í skólamálum hins vegar. Orsakasamhengi eru óvinsæl.
Skoðanakannanir hafa sýnt, að meirihluti þjóðarinnar er sæmilega sáttur við velferðarkerfi atvinnulífsins, sem hefur náð fullkomnun í landbúnaði. Þess vegna er ekki hægt að segja annað en, að þjóðin eigi fyllilega skilið þá útreið, sem hún er að fá hjá stjórnvöldum.
Á sama tíma og hremmingar kerfisins koma niður á öryrkjum, gamalmennum, námsmönnum, sjúklingum og barnafólki safnast þjóðin saman á fjölmenna fundi, ekki til að finna lausn á vanda velferðarinnar, heldur til að mótmæla aðild Íslands að meira viðskiptafrelsi.
Þjóð, sem rökræðir með frásögnum af skældum hrútum, er hún nefnir í höfuð fólks, sem henni er illa við, hefur nákvæmlega það Alþingi, sem hún á skilið.
Jónas Kristjánsson
DV