Undralyf á undanhaldi

Greinar

Undralyfin hafa lengi fylgt trúgjörnu mannkyni. Fólk tekur fegins hendi einföldum lausnum á flóknum vandamálum. Einna fyrirferðarmesti flokkur einfaldra lausna er trúin á, að til séu undursamleg lyf, sem virki eins og töfrasproti gegn þrálátum heilsubresti.

Offita er orðin að bezta markaði undralyfja. Lífshættir nútímans stuðla að offitu, en fegurðarmat nútímans krefst hins gagnstæða. Spennan milli raunveruleika offitunnar og ímyndar spengileikans reynist mörgum óbærileg. Þeir sjá ekki aðra leið en undralyfin.

Sumpart felst vandinn í, að sumar algengustu fæðutegundir nútímans eru fitandi. Sumpart felst hann í, að enn algengari fæðutegundir virka eins og fíkniefni á heilabúið og framkalla þar þörf fyrir meiri neyzlu. Sykur magnar virkni sæluboðefnis í heilanum.

Fólk missir tök á mataræði sínu, rétt eins og fíkniefnaneytendur missa tök á neyzlu sinni. Það getur ekki hætt að borða, þótt það hafi þegar innbyrt meira en gæfulegt má telja. Þetta eru fæðufíklarnir, sem árangurslaust reyna hverja megrunarleiðina á fætur annarri.

Fólki reynist um megn að fara flóknu leiðina, sem er gamalkunn og áhrifamikil. Hún felst í að strika yfir viðbættan sykur og önnur lystaukandi fíkniefni í fæðunni, borða hóflegt magn á matmálstímum og borða ekki milli mála. Þetta er auðvitað hægara sagt en gert.

Í þeirri stöðu koma undralyf á borð við Herbalife eins og sending af himnum ofan. Sumir ná tímabundnum árangri með því að draga matarneyzlu sína niður í þúsund hitaeiningar á dag. Á þessu sæluskeiði vitna þeir í auglýsingum um undursamleg áhrif lyfsins.

Herbalife hefur verið í sviðsljósinu að undanförnu. Það er dýr vara með vafasömu innihaldi, sem seld er á sama hátt og fíkniefni. Menn fjármagna neyzlu sína með því að gerast sölumenn vörunnar. Úr þessu verður píramídakerfi, sem krefst stöðugrar útþenslu.

Bandaríska fjármálaritið Forbes spáði nýlega illa fyrir Herbalife, af því að framboðið á aulum í heiminum væri takmarkað. Fyrr eða síðar kæmist fólk að því, að verið væri að blekkja það. Þá yrði fyrirtækið að finna nýja markaði í öðrum heimshornum eða hrynja ella.

Í Frakklandi hefur salan á Herbalife hrapað úr 97 milljónum dollara árið 1993 niður í 12 milljónir dollara árið 1996. Í Þýzkalandi hefur salan hrapað á þessum tíma úr 196 milljónum dollara niður í 54 milljónir dollara. Af ýmsum slíkum ástæðum riðar fyrirtækið til falls.

Fyrrverandi starfsfólk Herbalife hefur sakað fyrirtækið um að reyna að semja við rússnesku mafíuna um að komast inn á fíkniefnamarkaðinn þar eystra. Það er einnig að reyna að koma sér fyrir í þriðja heiminum og er jafnvel farið að skjóta upp kollinum á Íslandi.

Ekki bætir úr skák, að heilbrigðisyfirvöld eru farin að elta Herbalife uppi. Í Bandaríkjunum hafa verið settar reglugerðir, sem takmarka notkun þess. Í Evrópu er hreinlega sums staðar farið að banna vöruna. Einnig hér á landi eru heilbrigðisyfirvöld farin að kanna málið.

Herbalife er bóla, sem rís og hjaðnar. Markaðurinn fyrir slík undralyf heldur samt áfram að vera til. Nútíminn er þess eðlis, að þeim fjölgar alltaf, sem misst hafa stjórn á mataræði sínu. Í hópi fæðufíkla eru alltaf einhverjir, sem taka fegins hendi hverri nýrri bólu.

Draumur ævintýranna um áhrifamikinn sprota töframannsins er ekki liðinn. Á miðri tækniöld væntir fólk þess enn, að Jón Óttar breyti því úr froski í prins.

Jónas Kristjánsson

DV