UNESCO eflir kúgun.

Greinar

Bláeygir seminaristar úr kennsluráðuneytum ýmissa vestrænna ríkja virðast eiga erfitt með að skilja raunveruleika þriðja heimsins að baki vel menntaðra og demantsleginna harðstjórnarfulltrúa á alþjóðlegum samkundum.

Í flestum löndum þriðja heimsins þjáist almenningur mun meira en á nýlendutímanum. Í stað vestrænna og veiklundaðra nýlenduherra eru komnir sérlega grimmir og gráðugir heimamenn, sem kúga og kvelja þjóðir sínar.

Harðstjórum þriðja heimsins er mikið í mun að skrúfa fyrir alla fjölmiðlun, sem ekki er á vegum þeirra sjálfra, innan lands, inn í það og út úr því. Með þeim hætti gengur þeim betur að rupla og ræna þjóðir sínar í friði.

Þeir halda því fram, að Vesturlönd beiti þjóðir þeirra upplýsingakúgun í krafti yfirburðastöðu í fjölmiðlun. Vestrænar athafnir á þessu sviði spilli þjóðareiningu og þjóðarsál á grýttri framfarabraut ríkja þriðja heimsins.

Harðstjórarnir hafa árum saman einkum beitt sléttgreiddum fulltrúum sínum á vettvangi Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO. Þar hefur þeim tekizt að slá ryki í augu manna, sem ekki sjá muninn á þjóðum og harðstjórum þriðja heimsins.

Mikilvægasta árangrinum náðu harðstjórarnir fyrir hálfu öðru ári, þegar UNESCO ákvað að vinna að nýskipun fjölmiðlunar í heiminum. Í kjölfarið hefur fylgt aukin ríkisumsjá í þriðja heiminum, bönn og ritskoðanir og fangelsanir.

Nú hefur UNESCO komið á fót svokallaðri þróunaráætlun fjölmiðlunar. Allir styrkir, sem hingað til hafa verið veittir samkvæmt áætluninni, hafa runnið til eflingar áróðursráðuneyta einstakra ríkja og svæðissambanda.

Þessi áróðursráðuneyti sigla sumpart undir fölsku flaggi fréttastofa. Markmið þeirra er samt allt annað en þeirra stofnana, sem kallast slíkum nöfnum á Vesturlöndum. Þær vinna ekki að því að upplýsa, heldur að hindra upplýsingar.

Með fjárhagsaðstoð Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna stefna margir harðstjórar þriðja heimsins markvisst að útilokun vestrænna fréttastofa, annarra fjölmiðla og innlendra umboðsmanna þeirra frá ríkjum þeirra.

Þannig þykjast harðstjórarnir geta rofið haldreipið eða tvinnaþráðinn, er liggur milli kúgaðs og ruplaðs almennings í þriðja heiminum og þess hluta veraldar, þar sem mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna er helzt í heiðri höfð.

Í stað vestrænna frásagna af raunveruleika rána, pyndinga og morða í þriðja heiminum eiga að koma glansmyndir áróðursráðuneyta af brosandi harðstjórum að klappa litlum börnum á kollinn. Í þessa þágu hefur UNESCO verið virkjað.

Íslendingar fara í stórum dráttum eftir mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna, þar á meðal ákvæðum hennar um tjáninga- og upplýsingafrelsi. Við þolum að vísu enn ríkiseinokun á fjölmiðlum ljósvakans, en ræðum um hana sem vandamál.

Fulltrúar okkar á alþjóðlegum samkundum eiga að benda fulltrúum harðstjóranna á, að mannréttindaskrá Sameinuðu þjóðanna eigi ekki aðeins við um fámennan hóp vestrænna ríkja, heldur eigi að gilda fyrir mannkynið í heild.

Fulltrúar okkar eiga að átta sig á, að hinir vel menntuðu þriðja heims menn eru hirðmenn harðstjóra og ekki umboðsmenn almennings í þriðja heiminum. Þeir eru blóðsugur á þriðja heiminum og þá á að umgangast sem slíkar.

Jónas Kristjánsson

DV