Unesco er ónýt

Greinar

Ljóst er orðið, að Unesco, menntastofnun Sameinuðu þjóðanna, verður ekki siðvædd innan frá. Framkvæmda stjóri stofnunarinnar, Amadou Mahtar M’Bow, verður að öllum líkindum endurkjörinn á næsta ári til sex ára. Það þýðir, að hann verður við völd til 1993.

Ísland ber hluta af ábyrgðinni á þessum slæmu horfum. Fulltrúi Íslands hefur fyrir hönd Norðurlanda átt sæti í stjórnarnefnd Unesco. Og stjórnarnefndin hefur gersamlega gefizt upp fyrir M’Bow. Hún leyfir honum að fara sínu fram að eigin vild.

Meðal annars hefur stjórnarnefndin fallizt á afbrigðilega snögga brottvikningu ríkisendurskoðanda Bretlands sem utanaðkomandi endurskoðanda Unesco. Þar með minnka líkur á, að hægt sé að veita fjárhagsóstjórn M’Bows endurskoðunaraðhald á vestræna vísu.

Ennfremur er orðið ljóst, að stjórnarnefndin leyfir M’Bow að hefna sín fyrir brotthvarf Bandaríkjanna og Bretlands með því að ýta til hliðar og út starfsmönnum frá þessum löndum. Í Unesco er þannig ekki rekin sáttastefna, heldur ögrunarstefna gegn Vesturlöndum.

M’Bow hefur stjórnað Unesco í rúman áratug í umboði bandalags harðstjóra þriðja heimsins, arabaríkjanna og járntjaldsríkjanna. Þetta bandalag hefur notað Unesco til að stuðla að kúgun fátækra þjóða, takmörkun upplýsinga og lögverndun áróðursráðuneyta.

Á vegum Unesco er miklu fé varið til að hefta fjölmiðlun og sveigja hana undir áróðursstofnanir, sem ekki vilja, að sagt sé frá ránskap harðstjóranna, pyndingum og morðum. Þeir vilja ekki heyra um ágirnd þeirra, mistök, hroka og endalausa valdníðslu.

Í þessu skyni hefur verið reynt að koma upp skrásetningu blaðamanna hjá áróðursráðuneytunum. Reynt hefur verið að taka fjölmiðlunarrétt af alþjóðlegum fréttastofum og búa til einokun áróðursráðuneyta, sem rekin eru á vegum harðstjóranna sjálfra.

Þetta er önnur hliðin á Unesco. Hin hliðin er hin ógnvænlega óráðsía í meðferð fjármuna. Þar fer fremstur M’Bow sjálfur, sem hagar sér eins og vestur-afrískur keisari með stjarnfræðilegum tilkostnaði, svo sem vistarverur hans í Unesco og bílafloti sýna.

Afleiðing óstjórnarinnar er, að meirihluti fjármagns Unesco kemst aldrei út til þriðja heimsins, heldur brennur upp í París, þar sem aðalstöðvarnar eru. Frægt er, að sá næturklúbbur borgarinnar, sem lengst hefur opið fram á morgun, Keur Samba, lifir á Unesco-liðinu.

M’Bow hefur komið því svo fyrir, að embættismenn, sem eru fulltrúar þátttökuríkjanna, líta margir hverjir á aðild sína sem sumarfrí í París. Auk þess hefur M’Bow tök á að láta rætast drauma þeirra um að fá embætti við stofnunina sjálfa. Það gerir þá þægari en ella.

Ljóst er orðið, að hvarf Bandaríkjanna og Bretlands úr þessari gerspilltu stofnun hefur ekki falið í sér neina aðvörun til M’Bows og harðstjórabandalagsins að baki honum. Ljóst er líka, að hótanir annarra ríkja um brottför hafa ekki heldur haft hin minnstu áhrif.

Kominn er tími til, að íslenzk stjórnvöld viðurkenni, að tilraunir til að siðbæta Unesco hafa engan árangur borið og munu engan árangur bera. Eyðsluklær og hatursmenn lýðræðis munu áfram ráða Unesco og hafa hinn skaðlega M’Bow á oddinum næstu sjö árin.

Við höfum vansæmd af þátttöku í stofnuninni. Þess vegna er rétt að undirbúa nú þegar að segja Ísland formlega úr Unesco fyrir næstu áramót.

Jónas Kristjánsson

DV