Uppgjör er óhjákvæmilegt

Greinar

Mikill liðsafnaður Bandaríkjanna og nokkurra ríkja íslams og Vestur-Evrópu í eyðimörk Arabíuskaga hlýtur að vera til undirbúnings öflugrar gagnárárásar á Írak og Saddam Hussein. Herútboðið er miklu meira en þarf til að verja Saúdi-Arabíu gegn frekari útrás Írakshers.

Skákklukkan við Persaflóa gengur fremur á bandamenn en á Saddam Hussein. Harðstjórnarríki hafa tilhneigingu til að þola langt hafnbann. Bandamenn munu eiga erfitt með að grafa sig niður í sandinn til margra mánaða dvalar, meðan beðið er árangurs af hafnbanni.

Ef Saddam Hussein lætur her sinn hörfa frá Kúvæt, en heldur eftir olíusvæði og tveimur eyjum við botn flóans, hefur hann unnið sigur í Persaflóastríðinu. Hann mun þá blómstra í landi sínu og bíða betra færis, þegar hann verður kominn með kjarnorkuvopn í hendurnar.

Írak verður að greiða Kúvæt skaðabætur fyrir að hafa rænt og ruplað landið. Hussein verður að fara frá völdum í Írak. Eyðileggja verður allar stöðvar í Írak, þar sem undirbúin er smíði kjarnorkuvopna. Allt annað en þetta þrennt fæli í sér ósigur bandamanna.

Spurningin er, hvort bandamenn hafa herafla og samtakamátt til að ná sigri í Persaflóastríðinu. Um það eru deildar skoðanir. Saúdi-Arabía, Egyptaland og Tyrkland eru mikilvægustu bandamannaríkin meðal ríkja íslams. Enginn bilbugur virðist á þeim að sinni.

Óljóst er, hversu mikils virði eru yfirburðir bandamanna í lofti. Menn minnast, að í síðari heimsstyrjöldinni tókst Þjóðverjum ekki að sigra Breta með loftárásum og bandamönnum ekki heldur að kúga Þjóðverja til uppgjafar, þrátt fyrir gífurlegar loftárásir.

Menn minnast líka lofthernaðar Bandaríkjanna í Norður-Kóreu og Víetnam og Sovétríkjanna í Afganistan. Í engu þessara tilvika var hægt að nýta yfirburði í lofti til sigurs á landi. Þess vegna efast margir um, að hægt sé að vinna úr lofti sigur á Saddam Hussein.

Fylgjendur lofthernaðar segja, að ekki þurfi að koma til styrjaldar á landi, því að Saddam Hussein muni brotna, þegar herbækistöðvar landsins; flugvellir; hernaðarlegar verksmiðjur; aðsetur leyniþjónustu, hers og ríkisstjórnar verði snögglega eyðilögð úr lofti.

Einnig er bent á, að gísling Vesturlandabúa hafi ekki snúið vestrænu almenningsáliti gegn uppgjöri bandamanna við Saddam Hussein og Írak. Miklu frekar hafi gíslatakan sannfært almenning um, að ryðja þurfi Íraksforseta úr vegi með öllum þeim ráðum, sem tiltæk eru.

Bandamenn eru í þeirri einstæðu aðstöðu að nánast öll heimsbyggðin stendur með þeim. Gorbatsjov Sovét forseti hefur gefið Bush Bandaríkjaforseta grænt ljós. Saddam Hussein getur ekki vænt neins hernaðarlegs eða siðferðilegs stuðnings, sem máli skiptir.

Hussein er ekki eini harðstjórinn, sem undirbýr smíði kjarnavopna. Víðar í þriðja heiminum stefna harðstjórar óðfluga að slíkum vopnum. Hussein er ekki eini harðstjórinn, sem beitir efnavopnum. Herskáir harðstjórar munu víðar verða hættulegir í náinni framtíð.

Sigur bandamanna yfir Saddam Hussein, hrun ríkisstjórnar hans og eyðing vopnabúnaðar er eina leiðin til að sýna herskáum harðstjórum þriðja heimsins fram á, að þeir muni ekki komast upp með að safna sér kjarnorkuvopnum og efnavopnum til að kúga umhverfi sitt.

Jafntefli við Persaflóa væri sigur Husseins og freisting fyrir aðra. Þess vegna er óhugsandi, að hinn mikli liðsafnaður bandamanna leiði til annars en uppgjörs.

Jónas Kristjánsson

DV