Upphafið að endalokunum?

Greinar

Ríkisstjórnin hefur stundað fálmkennt reiptog um fjárlaga- og lánsfjárlagagatið í rúmar þrjár vikur. Virðing hennar hefur hjaðnað við þessa iðju. Daglega lesa menn og heyra fréttir um, að einn ráðherrann vilji fara út og annar suður, þriðji norður og hinn fjórði niður.

Eftir hina miklu jóðsótt fjallsins er þegar orðið ljóst, að fæðast mun lítil mús. Ríkisstjórnin mun ná samkomulagi um aðgerðir, sem að minnstu leyti fela í sér niðurskurð, að meira leyti aukna skattheimtu og að mestu leyti hreina frestun vandans með skuldasöfnun.

Þetta er auðvitað ekki nokkur árangur. Niðurstaðan hlýtur að vekja menn til umhugsunar um, hvort reiptogið og útkoma þess séu ekki upphafið að endalokum ríkisstjórnarinnar. Eftir djarfa og vinsæla byrjun muni hún koðna niður og smám saman andast úr hræðslu og fylgisleysi.

Þegar reiptogið hófst fyrir hálfri fjórðu viku, voru tilbúnar hugmyndir embættismanna um 1.700 milljón króna bandorm, sem fól í sér bæði niðurskurð og nýjar álögur. Bandormurinn hefði fyllt gatið að verulegu leyti. Ríkisstjórnin hefði vel getað byggt á honum.

Í stað þess fengu flestir ráðherranna fyrir hjartað, þegar þeir sáu orminn. Þeir litu í barm sinna ráðuneyta og sáu fram á margvíslegar raunir við framkvæmd málsins. Þeir kusu að ganga ekki djarflega til verks, heldur stinga höfðinu í sandinn í von um, að vandinn hyrfi.

Eftir bandorminn hafa komið fram ýmsar tillögur aðrar um aukinn sparnað og niðurskurð hjá ríkinu. Lengst hefur verið gengið hér í leiðara, þar sem raktar voru fimmtán tillögur um samtals 3.089 milljón króna hreinan niðurskurð fjárlaga og lánsfjáráætlunar ársins.

Meðal annars var lagt til, að fjármagn til vegagerðar yrði lækkað úr 1.583 milljónum í 1.383, það er að spöruð yrði 200 milljón króna lántaka í ljósi erfiðleikanna. Samgönguráðherra fórnaði höndum í örvæntingu og spurði: Hvaða kjósandi vill sjá af nýja veginum sínum?

Einkennilegt er, að ráðherrarnir skuli halda dauðahaldi í 200 milljón króna framlag til virkjunar Blöndu, sem landeigendur hafa gert að dýru orkuveri og sem ekki hefur kaupanda að orkunni. Og í 104 milljón króna framlag til flugstöðvar, sem má bíða betri tíma.

Einnig er einkennilegt, að ráðherrarnir skuli halda dauðahaldi í 100 milljón króna framlag til kaupa á hlutabréfum í loftköstulum á borð við steinullarver. Og í 92 milljón króna framlag til flugfélags, sem á allt gott skilið, en hefur þó hagnað á þessum erfiðu tímum.

Þegar illa árar, er eðlilegt, að ríkið neiti sér um að þykjast hafa efni á að veita 61 og 230 milljónum króna til orkustyrkja, sem hamla gegn því, að innlendir orkugjafar taki við af innfluttum. Þessir styrkir urðu til, þegar Íslendingar voru ríkari en þeir eru nú.

Og af hverju má ekki sleppa því á einu erfiðu ári að verja 83 og 120 milljónum króna til Byggðasjóðs, sem virðist hafa það hlutverk helzt að hamla gegn því, að fjárfest sé í fyrirtækjum, er geti staðið undir fjárþörf hins opinbera í náinni og fjarlægri framtíð?

Loks virðast ráðherrarnir lítið sem ekkert geta höggvið í samtals 1.483 milljón króna styrki, niðurgreiðslur og uppbætur til landbúnaðar. Þeir hafa hins vegar orðið sammála um að greiða niður áburð til landbúnaðar um 80 milljón krónur! Og um frestun gatsins að verulegu leyti!

Þessi frammistaða er fyrir neðan allar hellur.

Jónas Kristjánsson.

DV