Dómar hafa skánað nokkuð hér á landi, síðan fólk fór að hagnýta sér þann möguleika að vísa málum sínum til fjölþjóðlegra dómstóla, sem Ísland hefur neyðst til að samþykkja vegna viðskiptahagsmuna okkar af þátttöku landsins í fjölþjóðlegu samstarfi af ýmsu tagi.
Íslenzkir dómstólar eru ekki lengur eins hallir undir yfirvaldið og áður var. Nú verða þeir að taka tillit til mannréttinda og ýmissa grundvallaratriða í lýðræðislegu þjóðfélagi, svo að úrskurðum þeirra verði ekki enn einu sinni hnekkt af fjölþjóðlegum dómstóli úti í Evrópu.
Endurtekin sneypa ríkisins á þessum fjölþjóðlega vettvangi hefur leitt til betri aðgreiningar dómsvalds og stjórnsýslu. Sýslumanna- og fógetaembættum hefur verið skipt í héraðsdómaraembætti annars vegar og sýslumannsembætti hins vegar. Þetta er umtalsverð réttarbót.
Á fleiri sviðum eru utanaðkomandi áhrif farin að vernda almenning betur gegn yfirvaldinu og gæludýrum þess. Eitt nýjasta dæmið er, að fjölþjóðlegir viðskiptasamningar takmarka geðþótta landbúnaðarráðherra í ofbeldisaðgerðum gegn innflutningi ódýrrar matvöru.
Með aðild ríkisins að fjölþjóðlegum stofnunum á borð við Fríverzlunarsamtökin, Evrópska efnahagssvæðið og alþjóðlega fríverzlunarklúbbinn GATT hafa verið takmarkaðir möguleikar íslenzkra yfirvalda á að skattleggja almenning í formi einokunar og innflutningsbanns.
Viðskiptahagsmunir Íslands hafa neytt stjórnvöld til að undirrita samninga, sem munu smám saman valda auknu vægi innlendra almannahagsmuna gagnvart innlendum sérhagsmunum. Stjórnvöld hafa af alefli reynt að takmarka þessa breytingu, en orðið að gefa eftir.
Á öllum þessum sviðum birtast útlendar stofnanir, svo sem dómstólar og samtök, sem verndarenglar íslenzkrar alþýðu gegn innlendri yfirstétt embættis- og stjórnmálamanna, sem stjórna ríkinu í þágu afmarkaðra sérhagsmuna á borð við ráðuneyti, landbúnað og stórfyrirtæki.
Þetta er ekki ný bóla. Allt frá miðöldum hefur íslenzki jarðeigna- og embættaaðallinn gert ráðstafanir til að halda niðri sjávarútvegi og skattleggja hann í þágu landbúnaðar, svo sem fram hefur komið í nýlegum sagnfræðirannsóknum. Kóngur og hirð voru helzt til varnar fólki.
Þegar nýir lýðræðisstraumar í Evrópu fengu upplýsta hirðmenn í Kaupmannahöfn til að reyna að bæta stöðu íslenzkrar alþýðu, börðust íslenzkir embættismenn gegn því af hörku, svo að vinnumenn færu ekki að heimta hærra kaup í skjóli þess, að ella færu þeir á vertíð.
Höfuðástæðan fyrir því, að Ísland varð sjálfstætt ríki, er ekki heimastjórnin fyrir 90 árum, heldur stofnun Íslandsbanka á sama tíma. Um hann streymdi hingað erlent fjármagn, sem varpaði töfrasprota sínum á frumstæðan sjávarútveg og gerði hann að vélvæddri stóriðju.
Síðan komu tvær heimsstyrjaldir, sem færðu Íslandi stórgróða. Þær komu að utan eins og annar happafengur þjóðarinnar. Eftir þær kom kalda stríðið landinu í góðar flugsamgöngur við umheiminn. Jafnan voru það utanaðkomandi öfl, sem bættu stöðu almennings á Íslandi.
Hinar lýðræðislegu og efnahagslegu forsendur fyrir sjálfstæði og fullveldi Íslands og fyrir velmegun almennings hafa að verulegu leyti komið að utan, sumpart fyrir þrýsting. Þær eru ekki verk innlendrar yfirstéttar, heldur eru þær sumpart komnar til sögunnar þrátt fyrir hana.
Upphefðin hefur komið að utan. Við eigum enn eftir að sýna fram á, að við getum rekið sjálfstætt og efnahagslega öflugt lýðræðisríki á Íslandi fyrir eigin tilverknað.
Jónas Kristjánsson
DV