Knut Frydenlund virðist hafa einstæða hæfileika til að vefja íslenzkum starfsbræðrum um fingur sér. Þannig lék hann Benedikt Gröndal, þáverandi utanríkisráðherra, í fyrra . Og þannig hefur hann nú leikið Ólaf Jóhannesson, raunar sýnu grár.
Uppkastið, sem Ólafur Jóhannesson var reiðubúinn að skrifa undir í gær, er nokkru verra en það, sem Benedikt Gröndal kom með frá Noregi á sínum tíma. Það má því segja um stjórn utanríkismála Íslands, að lengi geti vont versnað.
Samkvæmt uppkastinu áttu Íslendingar að viðurkenna eða láta óátalda norska efnahagslögsögu við Jan Mayen. Í staðinn áttu Íslendingar ekki að fá neitt einasta, áþreifanlegt atriði, ekki einu sinni varanlegar loðnuveiðar.
Í uppkastinu fólst ekki viðurkenning á óskertum 200 efnahagsmílum Íslands í átt til Jan Mayen. Þar var ekki minnzt einu orði á hafsbotnsréttindi Íslands við Jan Mayen. Og loðnuveiðar Íslendinga við Jan Mayen áttu aðeins að fá að standa í eitt til fimm ár til viðbótar!
Nú er það sérstakt rannsóknarefni, hvernig Ólafur Jóhannesson gat talið sjálfum sér trú um um, að þetta fáránlegasta uppkast allra uppkasta túlkaði sanngjarna niðurstöðu . Hann hlýtur að hafa verið sleginn óvenjulegri blindu.
Ekki er síður alvarlegur þáttur Hans G. Andersen í smíði uppkastsins. Sá þáttur kom líka sérstaklega á óvart, því að Hans hefur hingað til staðið sig vel í hafréttarmálum. En hér eftir verður Dagblaðið að draga í efa, að hann sé fær um að gæta hagsmuna Íslendinga gagnvart Norðmönnum.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Alþýðubandalagsins, þeir Matthías Bjarnason og Ólafur Ragnar Grímsson, sögðu Ólafi Jóhannessyni auðvitað strax, að þetta uppkast væri út í hött. Og þeir urðu að taka til fótanna til að stöðva karlinn.
Ásamt Sighvati Björgvinssyni frá Alþýðuflokknum skutu þeir á þingflokksfundum til að segja frá ótíðindunum. Niðurstaðan var sú, að þingflokkar Sjálfstæðisflokksins, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks höfnuðu uppkastinu algerlega.
Á sama tíma voru þingmenn Framsóknarflokksins farnir að hringja í Steingrím Hermannsson sjávarútvegsráðherra til að forvitnast um, hvað væri á seyði. Er það kom í ljós, varð einnig uppreisn í Framsóknarflokknum.
Er Ólafur Jóhannesson stóð andspænis hótunum mikils meirihluta alþingis um að taka þetta endemisuppkast umsvifalaust upp utan dagskrár á þingi, lét hann loks undan. Segja má með sanni, að þar hafi hurð skollið nærri hælum.
Það er hart til þess að vita, að nú sem í fyrra skuli í broddi utanríkismála og hafréttarmála landsins vera menn, sem ekki er hægt að treysta. Menn, sem koðna niður og tapa öllum áttum, þegar þeir standa andspænis erlendum höfðingjum.
Nú er ljósara en nokkru sinni fyrr, að baráttumenn íslenzkra hagsmuna, bæði í stjórnarflokkunum og í stjórnarandstöðunni, svo og fjölmiðlar, verða að halda vöku sinni, ef unnt á að vera að hindra stórslys í samningum um Jan Mayen.
Satt bezt að segja er skárra, að Norðmenn taki sér efnahagslögsögu við Jan Mayen gegn mótmælum Íslendinga, heldur en að ráðamenn Íslands þurfi sjálfir að undirrita skilyrðislausa uppgjöf í Jan Mayen deilunni. Hótanir Norðmanna eru því einskis virði.
Uppkastið í gær jafngilti skilyrðislausri uppgjöf Íslendinga gagnvart Norðmönnum.
Jónas Kristjánsson.
Dagblaðið