Uppreisn undirstéttar

Greinar

Formaður Verzlunarmannafélags Reykjavíkur á vafasaman heiðurinn af að hafa í tvígang látið fella fyrir sér kjarasamninga. Hann vísar samt allri gagnrýni frá sér og hefur tíma til að stæla Davíð Oddsson borgarstjóra og rífast út í Reykvíkinga vegna ráðhússins.

Allt bendir þetta til skorts á sambandi við umheiminn og einkum við verzlunarmenn í Reykjavík. Sjaldgæft er, að stéttarfélagsmenn sýni forsvarsmönnum sínum það vantraust að fella fyrir þeim samning. Og einsdæmi er, að það gerist í tvígang með stuttu millibili.

Formaðurinn hefur sér til afsökunar, að fleiri verkalýðsstjórar hafa vanmetið félagsmenn sína, þótt dæmin séu ekki eins gróf og í Verzlunarmannafélagi Reykjavíkur. Guðmundur J. Guðmundsson og Karvel Pálmason létu líka fella fyrir sér samning, en bara einu sinni.

Athyglisverð er hin almenna frávísun ábyrgðar, sem slíkir foringjar hafa sýnt að undanförnu. Karvel lýsti til dæmis sérstökum fögnuði sínum, þegar skjólstæðingar hans felldu samning, sem hann hafði gert og undirritað. Síðan hafa aðrir leiðtogar hermt þetta eftir Karvel.

Átakanlegt er að horfa á forustumann atvinnurekenda koma daglega í sjónvarp með harmþrunginn ábyrgðarsvip út af hverju nýjasta áfalli og fjölyrða um, að atvinnulífið hafi ekkert frekar efni á að borga kaup, þótt samningar séu felldir, jafnvel tvisvar í röð.

Miklu nær væri fyrir hann að lýsa vantrausti á sambandslausa og ábyrgðarlausa viðsemjendur sína og heimta nýja umboðsmenn, sem séu í sambandi við umbjóðendur sína, fólkið í stéttarfélögunum, og geti þess vegna staðið við það, sem þeir skrifa undir.

Málsaðilar keppast við að útskýra vandamálið í burtu, en þeim hefur ekki tekizt það. Fyrst voru verzlunarmenn úti á landi sagðir hafa fellt samning, af því að þeir væru á berum töxtum, en ekki yfirborgaðir eins og verzlunarmenn á Reykjavíkursvæðinu.

Síðan voru verzlunarmenn í Reykjavík sagðir hafa fellt samning, af því að starfslið stórmarkaða vildi ekki vinna á laugardögum. Sagt var, að það hefði fjölmennt á fund í því skyni. Næst var ekið með kjörkassa út í fyrirtæki til að fá fleiri atkvæði, en allt kom fyrir ekki.

Samningamenn hafa ekki áttað sig á, að fólk er orðið þreytt á þversögnum lífskjara á Íslandi. Það skilur ekki, að fyrirtæki og þjóðarbú skuli hafa efni á gífurlegri yfirvinnu, yfirborgunum og launaskriði, en að allt þurfi svo að fara á hvolf út af hækkun á lægstu launum.

Fólk skilur ekki heldur, að verzlunin geti byggt stórar verzlunarhallir á skömmum tíma og að í Sambandi íslenzkra samvinnufélaga geti menn deilt um milljónamun í túlkun forstjóralauna, án þess að hafa efni á að borga venjulegu starfsfólki sómasamleg laun.

Kringlan í Reykjavík og forstjóralaun hjá Sambandsfyrirtækjum eru dæmi um ástand, sem hefur hleypt illu blóði í fólk. Slíkir minnisvarðar eru slæmur bakgrunnur hefðbundinna röksemda um, að hækkun láglauna sé hættuleg, af því að hún kyndi undir verðbólgu.

Þjóðfélagið hefur klofnað í fjölmenna og vel stæða millistétt, sem hefur nóg að bíta og brenna í krafti ætternis, menntunar, aðstöðu, hæfileika eða dugnaðar, og mun fámennari undirstétt, sem lepur dauðann úr skel á taxtalaunum. Þessi klofningur stenzt ekki til lengdar.

Jafnan hafa samningamenn stéttarfélaga einkum gætt hagsmuna vel stæðra félagsmanna og verið án sambands við hina, sem nú hafa gert uppreisn.

Jónas Kristjánsson

DV