Samanburður Verðlagsstofnunar á verði í Björgvin og Reykjavík er mikið áfall stuðningsmönnum frjálsrar samkeppni. Komið hefur í ljós, að við sambærilegar aðstæður hefur markaðnum ekki tekizt að færa íslenzkum neytendum lægra vöruverð með frjálsri álagningu.
Heildsölum eru ekki lengur haldbærar röksemdirnar frá samanburðinum við Glasgow í fyrra. Björgvin er á stærð við Reykjavík og er einnig tiltölulega afskekktur staður. Lítið vörumagn og langar flutningsleiðir gera þennan samanburð því ekki of óhagstæðan Reykjavík.
Íslenzkar heildsölur gera að meðaltali 20% óhagkvæmari innkaup en tíðkast í nágrenninu. Sennilega er rétt sú skýring verðlagsstjóra, að þetta stafi af umboðslaunum erlendis, sem hafi haldið velli, þótt fyrirtækin geti náð sínu í frjálsri álagningu innanlands.
Hin gamla álagningaraðferð umboðslauna er neytendum þung í skauti. Hún hækkar nefnilega grunninn, sem aðrar prósentur leggjast á, svo sem í tollum, vörugjaldi og álagningu í heildsölu og smásölu. Hún átti að hverfa samkvæmt formúlu frjálsrar álagningar.
Samanburðurinn sýnir líka, að frjálsa álagningin er há í krónum, þótt hún líti ekki illa út í prósentum. Með undangengnum prósentum ofan á prósentur er búið að hækka grunninn svo mjög, að lág álagningarprósenta getur verið í krónum talið hærri en innkaupsverðið!
Hin hörmulega frammistaða íslenzkrar heildsölu hefur endurvakið hugmyndir um aukið aðhald, jafnvel verðlagshöft í gamla stílnum. Augljóst er, að hingað til hefur hin frjálsa verzlun ekki megnað að skila viðskiptavinunum þeim árangri, sem að var stefnt.
Bent hefur verið á, að á ýmsum sviðum ríki enn hálfgerð einokun í innflutningi og að hugsanlega sé um að ræða samtryggingu nokkurra heildsala á öðrum sviðum. Samkvæmt formúlu frjálsrar verzlunar hefðu nýir aðilar átt að geta séð sér hag í að rjúfa þessa fjötra.
Ef til vill hafa neytendur ekki verið nógu duglegir við að gæta hagsmuna sinna með því að verzla þar, sem hagkvæmast er. En þeir hafa þó sýnt í viðskiptum við stórmarkaði, sem státa sig af tilboðsverðum, að Hagkaupsstefnan á hljómgrunn meðal íslenzkra neytenda.
Formaður Neytendasamtakanna hefur stungið upp á afmörkuðum verðlagshöftum á þeim sviðum, þar sem okrið í heildsölunni er grófast. Hann telur það geti orðið til viðvörunar hinum, sem næstir standa í okursamanburðinum. Og sýnt er, að eitthvað þarf að gera.
Forseti Alþýðusambandsins hefur lagt fram enn róttækari og rökréttari hugmynd. Hún er, að á þessum okursviðum verði ákveðið hámarksverð út úr búð í Reykjavík, sem skuli vera hið sama og út úr búð í Björgvin. Milliliðirnir geti svo bitizt um skiptingu teknanna.
Önnur aðferð gæti einnig orðið til hjálpar. Hún felst í að auka verðmæti þess varnings, sem ferðafólki sé heimilt að hafa með sér til landsins. Þannig má veita íslenzkum kaupmönnum viðvörun með því að flytja meira af verzluninni úr landi til góðra kaupmanna.
Nú reynir verulega á talsmenn og baráttumenn frjálsrar verzlunar í landinu. Á þeim hvílir kvöðin að finna leiðir til að láta hugsjón þeirra leiða til lægra vöruverðs og meiri vörugæða í þágu neytenda. Annan tilgang hefur frjáls verzlun ekki og á ekki að hafa.
Umfram allt þurfum við þó tíðari og fjölbreyttari samanburð Verðlagsstofnunar á frjálsri verzlun í út-öndum og svokallaðri frjálsri verzlun hér á landi.
Jónas Kristjánsson
DV