Úr klóm Landsvirkjunar

Greinar

Hagsmunum Reykvíkinga verður bezt þjónað í raforkumálum á þann hátt, að borgin losni úr viðjum Landsvirkjunar og geti sjálf virkjað jarðhita í landi sínu við Nesjavelli í Grafningi. Líklegt má telja, að slík framkvæmd muni lækka raforkukostnað Reykvíkinga.

Til þess að svo megi verða, þarf Alþingi að breyta lögum um einokun Landsvirkjunar. Nokkur fyrirstaða mun verða á þingi, einkum af hálfu ríkisdýrkenda Sjálfstæðisflokksins utan af landi, sem enn vilja halda uppi sovézku efnahagskerfi hér á landi við upphaf 21. aldar.

Næstbezti kostur Reykvíkinga er, að borgin losni úr viðjum Landsvirkjunar og geti notað peningana til að eyða skuldum sínum. Af 11 milljarða eign í Landsvirkjun fær borgin aðeins 241 milljón króna í arð, en borgar 700 milljón króna vexti af 12 milljarða skuldum sínum.

Ef unnt er að skipta út þessum tölum, situr borgin eftir með aðeins eins milljarðs skuld og 70 milljón króna ársvexti í stað 460 milljón króna núverandi munar á Landsvirkjunararði og öllum ársvöxtum. Það jafngildir tæplega 400 milljón króna sparnaði á hverju ári.

Reikningsdæmin líta svona út, af því að Landsvirkjun hefur verið illa rekin áratugum saman. Hún hefur gert óhagstæða samninga um orkuverð til stóriðju, hagað sér eins og fíkniefnasjúklingur í virkjanabrölti og stundað stórfelldan lúxus í rekstri aðalskrifstofunnar.

Að nokkrum hluta hefur ruglið í rekstri Landsvirkjunar stafað af þjónustu við ríkið, sem hefur haft hagsmuni af lágu orkuverði til Áburðarverksmiðjunnar og Járnblendifélagsins og reynt að ná hingað stóriðju með lágu orkuverði til Ísals og annarra lysthafa á því sviði.

Þessi óhæfilega þjónusta við ríkið kemur auðvitað niður á arðgreiðslum til eignaraðilanna, þar á meðal til Reykjavíkur. Þjónustan leiðir jafnframt til hærra raforkuverðs í landinu en annars þyrfti að vera. Það kemur niður á Reykvíkingum eins og öðrum landsmönnum.

Ekki er hægt að verja Landsvirkjun með því að segja hana hafa óvart lent í að eiga heilt orkuver við Blöndu afgangs og með öllu óarðbært. Margir urðu til að vara við þeirri virkjun á opinberum vettvangi. Meðal annars var í leiðurum þessa blaðs varað við Blöndusukkinu.

Ótímabær virkjun Blöndu hefur kostað Landsvirkjun milljarða króna í óþörfum vaxtagreiðslum, rýrt möguleika hennar til að greiða eignaraðilum sínum eðlilegan arð og til að hafa á boðstólum orku á sambærilegu verði við það, sem gildir í nágrannaríkjum okkar.

Ráðamenn Akureyrar eru í svipuðum hugleiðingum og ráðamenn Reykjavíkur, enda eru aðstæður svipaðar, þótt í smærri stíl sé. Akureyri lagði Laxárvirkjun inn í Landsvirkjun á sínum tíma eins og Reykjavík lagði til Sogsvirkjanir og hefur líka tapað á þeim gerningi.

Gallinn við hugsanlegt brotthvarf Reykjavíkur og Akureyrar úr samstarfi við ríkið um Landsvirkjun er, að hvorki hún né ríkið geta leyst út eignaraðila eftir sukk undanfarinna tveggja áratuga. Það er tómt mál að tala um, að bæjarfélögin geti náð út fé sínu.

Hugsanlegt er, að Landsvirkjun geti leyst hluta vandans með því að afhenda bæjarfélögunum hluta af orkuverum sínum. Það er tæknilega erfitt, en áreiðanlega framkvæmanlegt. Þar með væri lokið langri harmsögu einokunar Landsvirkjunar á orkuöflun í landinu.

Á einhvern slíkan hátt þurfum við að losna úr klóm Landsvirkjunar, til þess að fá orku á verði, sem er sambærilegt við lönd, er verri hafa náttúruskilyrði.

Jónas Kristjánsson

DV