Úr Niflungahringnum

Greinar

Fyrir tveimur árum hótaði Davíð Oddsson forsætisráðherra Sverri Hermannssyni bankastjóra bréflega að nota ellefu milljarða tap Landsbankans og 900 milljóna tap Lindar til að láta reka bankastjórana, ef hann sæi ekki um, að bankinn fylgdi vaxtastefnu stjórnvalda.

Í framhjáhlaupi er athyglisvert, að forsætisráðherra skuli fyrir meira en tveimur árum hafa vitað nákvæmlega um 900 milljóna sukkið, sem bankaráðherra sver nú og sárt við leggur að hafa ekki vitað um, þegar hann gaf Alþingi rangar upplýsingar um málið.

Sverrir gaf eftir og var ekki rekinn. Hann vissi, að skilaboð formanns Flokksins voru þungvægari en formlegt valdakerfi bankans, þar sem bankastjórar heyrðu undir bankaráð, sem þá heyrði undir Alþingi. Í bréfinu talaði landseigandi við einn lénsherra sinna.

Bréfið hefur verið birt og gefur góða innsýn í hugarheim ráðamanna, sem minnir meira á þriðja heiminn en nágrannalöndin. Lög og reglur og hefðir víkja fyrir afrískum geðþótta, sem gengur þvert á allar leikreglur og form, sem gilda í lýðræðisríkjum nútímans.

Forsætisráðherra var ekki að lækna sukkið í rekstri bankans heldur nota það sem skiptimynt í ágreiningi um vexti. Enda fór svo fyrir tveimur árum, að ekkert var gert í málum bankans, sem hafði tapað ellefu milljörðum, þar af tæpum milljarði á einni Lind.

Forsætisráðherra fór ekki réttar boðleiðir samkvæmt bókfærðu skipulagi. Hann leit svo á, að sem formaður Flokksins gæti hann skákað þeim herrum, sem höfðu fengið lén á vegum flokksins. Þetta reyndist vera alveg rétt hjá honum, enda er Ísland þriðja heims ríki.

Svipað hugarfar kom fram hjá Sverri Hermannssyni, þegar hann var löngu síðar rekinn vegna allt annarra mála, laxveiða sinna. Þá lagðist hann í herferð gegn spillingu annarra, ekki til að bæta heiminn, heldur til að hefna sín á þeim, sem höfðu stjakað við honum.

Sverrir ljóstraði upp um bankaráðherra og utanríkisráðherra vegna óráðsíustráks á framfæri þeirra, þingmann af Vestfjörðum fyrir ósiðlega yfirtöku einokunarfyrirtækis og ríkisendurskoðanda fyrir fjárhagslega misnotkun embættisins. Aðra sukkara lét hann í friði.

Bankastjórinn fyrrverandi og forsætisráðherrann núverandi eru aftan úr grárri forneskju, þar sem hefnd og hroki, lén og níðsla réðu ferð, áður en farið var að búa til formlegar umgengnisreglur til að byggja upp flókin nútímaríki. Þeir koma úr Niflungahringnum.

Á ytra borði ríkir hér svipað þjóðskipulag og í nágrannalöndunum, þar sem forfeður manna urðu að fórna lífinu til að losna undan kúgurum fortíðarinnar. Undir niðri ríkir fortíðin samt áfram hér á landi, enda var forfeðrum okkar gefið lýðræði á silfurfati.

Stjórnunarstíll fyrrverandi borgarstjóra og núverandi forsætisráðherra væri ekki framkvæmanlegur í nágrannalöndnum. Hann virkar hér á landi, af því að millistjórnendur þjóðfélagsins líta á sig sem lénsherra, sem hafi þegið lén sín úr hendi Davíðs konungs.

Venjulega fer stjórnunarstíll að hætti Niflungahringsins fram í síma og er því ekki skjalfestur. Bréfið til bankastjórans er einstakt í sinni röð, af því að það gefur svart á hvítu innsýn í svörtustu forneskju, sem menn grunaði, að væri til, en gátu ekki sannað.

Og þjóðin er því miður bara feitur þræll, sem lætur bjóða sér lénsskipulag í lok tuttugustu aldar, af því að frelsið hefur aldrei fest rætur í brjósti hennar

Jónas Kristjánsson

DV