Úr öskunni í eldinn

Greinar

Ítalir féllu á prófinu í fyrstu kosningunum eftir hrun hinna gömlu og spilltu stjórnmálamanna, sem stjórnað höfðu Ítalíu í hálfa öld. Ítalir létu markaðsfræðinga taka sig í nefið og kusu að trúa á innantóm loforð fjölmiðlakóngsins Berlusconis, sem varð ríkur á gamla kerfinu.

Silvio Berlusconi náði í sjónvarpsréttindi sín í skjóli skömmtunarvalds eins hins allra spilltasta af gömlu stjórnmálamönnunum, Bettino Craxi, foringja jafnaðarmanna. Og nú hefur Berlusconi misnotað hinn illa feng til að troða sér upp á óviðbúna kjósendur Ítalíu.

Berlusconi á helming sjónvarps á Ítalíu. Stöðvar hans voru ein samfelld áróðursvél í kosningabaráttunni. Þær bjuggu til af honum glansmynd, sem Ítalir féllu fyrir. Slíkt hefði ekki verið hægt hér á landi, jafnvel þótt einn maður hefði alla valda- og markaðsstöðu Berlusconis.

Ef við hugsum okkur, að einn maður ætti Stöð 2, Morgunblaðið, Eimskip, Skeljung og Sjóvá-Almennar, stofnaði um sig stjórnmálaflokk og gerði Stöð 2 að áróðursvél sinni, mundi hann ekki ná miklum árangri í kosningum. Hér vita kjósendur, að vald á að vera dreift.

Vestrænum ríkjum hefur gefizt vel að dreifa valdi, hafa pólitískt vald á nokkrum stöðum, efnahagsvald á mörgum öðrum stöðum og fjölmiðlavald á enn öðrum stöðum. Það kann ekki góðri lukku að stýra að draga þrenns konar vald í einn stað að hætti Berlusconis.

Því miður er ástæða til að óttast, að Berlusconi telji sig þurfa á ríkinu að halda til að verja efnahagsveldi sitt falli. Skuldir þess hafa aukizt hratt, mun hraðar en eignirnar, og nema nú 4000 milljörðum líra. Innrás hans í stjórnmálin getur öðrum þræði verið hagsmunagæzla.

Ekki er nóg með, að Ítalir hafi eytt 24% þingsætanna á nýstofnaðan flokk Berlusconis, heldur hafa þeir glutrað 16% á flokk nýfasista, sem var í kosningabandalagi með Berlusconi. Samtals hafa þessir tveir hættulegu flokkar 40% af þingmönnum Ítalíu á nýkjörnu þingi landsins.

Foringi nýfasista er Gianfranco Fini, sem hefur orðið illræmdur af yfirlýsingu um, að Istría og Dalmatía, sem eru hlutar af hinni gömlu Júgóslavíu, ættu að falla undir Ítalíu. Nógir eru um valdabaráttu á því svæði, þótt Ítalir bætist ekki við og flæki málin enn frekar.

Eftir kosningar hefur Fini bætt um betur. Hann segir Mussolini hafa verið mesta stjórnmálaskörung aldarinnar. Þannig hefur hann tengt nýfasista við gamla fasistaforingjann, sem sýndi raunar ekki skörungsskap, heldur fór illa með Ítalíu í algerlega misheppnuðu stríðsbrölti.

Að öðru leyti felst stefna nýfasista eins og gömlu fasistanna einkum í harðvítugri miðstýringaráráttu, sem gengur þvert á stefnu þriðja aðilans í kosningabandalaginu, Norðurlígunnar, sem vill stórauka vald héraða og landshluta á kostnað miðstjórnarvaldsins í Rómaborg.

Fylgi Norðurlígunnar er bundið við norðurhluta landsins, þar sem hinn ríkari hluti landsmanna býr og vill draga úr opinberu fjárstreymi til suðurs. Fylgi nýfasista er hins vegar bundið við suðurhluta landsins, þar sem fátækari hlutinn býr og vill efla þetta streymi.

Kosningaúrslitin fólu í sér hrun stjórnmálamanna, sem harðast hafa gengið fram í baráttunni við Mafíu, Camorra og Ndrangheta glæpaflokkana. Mafíuandstæðingar féllu unnvörpum fyrir mönnum Berlusconis, meðal annars fyrir atbeina fjölskyldnanna 150 á Sikiley.

Með atkvæðum sínum hafa Ítalir bakað sér ný vandamál, sem verða þeim þung í skauti. Eftir ragnarök gamla kerfisins hafa þeir alls ekki komizt á neina Iðavelli.

Jónas Kristjánsson

DV