Úr tengslum við slorið

Greinar

Oft hafa stéttarfélög ýtt úr vör með meiri kaupkröfur en háskólafólk hjá ríkinu hefur gert að þessu sinni. Og komið hefur fyrir, að þau hafi náð til hafnar með umtalsverðan hluta af kröfunum. Því er forvitnilegt að gera sér grein fyrir, af hverju siglingin gengur nú illa.

Launahlutföll hópa breytast ekki alltaf í takt. Einstökum stéttum hefur stundum tekizt að rífa sig lausar og ná meiri árangri en aðrar. Það gerðist raunar áður hjá háskólamenntuðu fólki, þegar samið var við ríkið um starfsmat, sem tók mikið tillit til menntunarlengdar.

Nú telja háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn, að aftur hafi sigið á ógæfuhliðina, og vilja rétta hlut sinn á nýjan leik. Sumir hópar þeirra eru í verkfalli, sem staðið hefur í réttar þrjár vikur og gæti staðið í margar vikur í viðbót. Engin lausn deilunnar er í sjónmáli að sinni.

Þegar vel hefur gengið að setja fram miklar kröfur og ná miklu fram, hafa aðstæður verið aðrar í þjóðfélaginu. Venjulega hefur það gerzt í kjölfar aukinnar velgengni í sjávarútvegi. Við slíkar aðstæður hafa hópar í landi haft misjafnt lag á að maka krókinn.

Að þessu sinni hafa ekki orðið í sjávarútvegi nein uppgrip, sem stjórnvöld geti dreift yfir þjóðfélagið í heild. Þvert á móti hafa tvær ríkisstjórnir í röð rekið fastgengisstefnu, sem hefur keyrt þrælsólina svo fast að hálsi sjávarútvegs, að honum liggur við köfnun.

Að þessu sinni er ekki heldur um að ræða, að hlutur launa í þjóðarkökunni sé að aukast og að einstakir hópar geti náð stærri sneiðum en aðrir af launahlutnum. Hann er mun stærri en venja hefur verið á síðustu áratugum og mun ekki aukast neitt til viðbótar.

Háskólamenntaðir ríkisstarfsmenn hafa valið rangan tíma til að reyna að bæta hlut sinn umfram aðra. Ríkisstjórnin getur ekki leyft sér að semja við þá um aðrar samningastærðir en samið var um við aðra ríkisstarfsmenn og samið verður um við starfsfólk atvinnulífsins.

Ef stjórnvöld semdu við háskólafólk um meira en hjá öðrum ríkisstarfsmönnum, mundi almenni vinnumarkaðurinn hækka kröfur sínar. Ennfremur færi allt í gang aftur hjá bandalagi ríkisstarfsmanna. Stólarnir mundu hreinlega fljóta undan ráðherrunum í kollsteypunni.

Athyglisvert er, að háskólamenntaðir kennarar eru í hópi verkfallsmanna, þótt þeir hafi reynslu af litlum árangri í verkföllum. Það minnir á, að prentarar hafa á ýmsum tímabilum hneigzt til næstum árvissra verkfalla, þótt þeir hafi tapað á þeim, en ekki grætt.

Stundum rís róttæk þrætubókarforysta í stéttarfélögum. Hún hrífur með sér félagsmenn í eins konar hópefli, sem leiðir til verkfallshneigðar. Það er ekki fyrr en eftir nokkrar misheppnaðar atrennur, að hópvíman rennur af fólki og það fær sér raunsærri forustu.

Þrætubókin hefur fengið hljómgrunn hjá háskólagengnu fólki, af því að það hefur einangrazt í þjóðfélaginu og skilur ekki raunveruleikann í kringum sig. Kennarar úti á landi vita meira um atvinnulífið í kringum sig og voru því tregari til verkfalls en höfuðborgarliðið.

Hjá háskólamenntuðu fólki, einkum því, sem ekki stundar kennslu, er afar óáþreifanlegt samhengi milli launaumslags og árangurs í starfi. Sumir virðast raunar telja, að þeir eigi rétt á að fá borgað fyrir að vera til. Þeir eru víðar en á Rannsóknastofnun landbúnaðarins.

Verkfallsfólk mun bíða meira tjón af verkfallinu en sem nemur því, er um verður samið að lokum. Þetta stafar af, að háskólafólk hefur misst tengslin við slorið.

Jónas Kristjánsson

DV